Konur og mannréttindi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 10:45:41 (5369)

2001-03-08 10:45:41# 126. lþ. 85.94 fundur 356#B konur og mannréttindi# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Á þessum fyrsta áratug 21. aldarinnar stendur heimsbyggðin enn frammi fyrir því að fjöldi kvenna víðs vegar um heim býr við kúgun og ofbeldi sem ekki verður rakið til neins annars en kynferðis þeirra. Nú nýverið var sýndur á sjónvarpsstöð einni áhrifamikill þáttur sem bandaríska sjónvarpskonan Oprah Winfrey stýrði þar sem dregin var upp dökk mynd af lífi kvenna víðs vegar um heim.

Þátturinn vakti mikla athygli enda nokkuð nýstárlegur vettvangur fyrir umræðu af þessu tagi sem því miður hefur allt of oft viljað lokast inni í þröngum hópum áhugakvenna um mannréttindi kvenna. Með því að fjalla um þessar sorglegu staðreyndir í þætti sínum opnaði sjónvarpskonan augu margra kvenna og karla sem líklega hafa ekki áður velt þessum málum mikið fyrir sér.

Það er eitt samfélag sem ég hef fylgst með af athygli síðustu árin og nú nýverið hefur þetta samfélag verið mjög í heimsfréttum vegna fregna af skemmdarverkum á menningarverðmætum. Ég er að tala um Afganistan en eftir að talebanahreyfingin náði þar völdum í september 1996 hafa fréttir um fjöldamorð og mannréttindabrot í landinu verið tíðar.

Eitt af því sem talebanahreyfingin lagði strax til atlögu við þegar hún náði völdum í landinu voru konur og frelsi þeirra. Konur þar í landi bjuggu við réttindi á borð við þau sem tíðkast þar sem best gerist. Menntunarstig þeirra var hátt, atvinnuþátttaka mikil og mannréttindi þeirra í hávegum höfð. Talebanar réðust í að banna atvinnuþátttöku kvenna, aðgang þeirra að heilbrigðisþjónustu og menntun og ferðafrelsi þeirra og sjálfstæði var hrifið burt í einni svipan.

Það er lykilatriði í mannréttindabaráttu á boð við þá sem snýr að konum í Afganistan að alþjóðasamfélagið láti í sér heyra þótt oft sé það vanmáttugt frammi fyrir slíkum voðaverkum. Alþjóðasamfélagið lét í sér heyra þegar talebanar hugðust eyðileggja fornar styttur í landinu sem tengjast íslömskum sið. Ekki var annað hægt en hugsa til hinna ofsóttu kvenna í landinu og þess hversu lítið fer fyrir hörmungum þeirra í heimspressunni á meðan athygli beindist að Búdda-líkneskjunum sem áttu á hættu eyðileggingu talebananna. Því miður er það svo að þótt mannréttindasamtök hafi beint sjónum sínum nokkuð að málefnum þessara kvenna þá dugir það ekki til.

Ég vil í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, hvetja hæstv. utanrrh. til að beita sér í hvívetna fyrir því á alþjóðavettvangi að þessar konur verði leystar úr ánauð þeirri sem þær hafa verið hnepptar í.