Konur og mannréttindi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 10:50:25 (5371)

2001-03-08 10:50:25# 126. lþ. 85.94 fundur 356#B konur og mannréttindi# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[10:50]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að eiga þess kost að ræða þessi mál á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Það er gott að fá tækifæri til að ræða þessi mál í alþjóðlegu samhengi. Þá gerum við okkur kannski betur grein fyrir því hversu viðfangsefni sem við erum að glíma við í þessum efnum varðandi réttindi kvenna eru agnarsmá í samhengi við þau gríðarlegu vandamál og hræðilegu vandamál sem víða steðja að konum, sérstaklega í þriðja heiminum, eins og glögglega hefur komið fram í umræðunni í dag.

Við vitum að réttindi kvenna víða um heim eru fótum troðin, mansal, kynlífsþrælkun og skipulagðar nauðganir eru daglegt brauð þeirra kvenna sem búa við lakast ástand víða í heiminum eins og fréttir fjölmiðla bera oft með sér. Allt þetta kemur okkur að sjálfsögðu við.

Óaðskiljanlegur hluti þess að reyna að bæta hlut kvenna í heiminum, ekki síst á þessum sviðum, er auðvitað að efla pólitíska þátttöku kvenna í heiminum sem víðast. Ég hef átt þess kost á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, að taka þátt í slíkri umræðu og hlusta á sjónarmið kvenna víða að úr heiminum sem glíma við vandamál af þessu taginu. Pólitísk þátttaka kvenna er ekki bara spurning um réttlæti. Þetta er spurning um skynsamlega og eðlilega stjórnarhætti og heilbrigða skynsemi almennt. Víðast hvar er að sjálfsögðu búið að ryðja úr vegi hinum pólitísku eða hinum lagalegu hindrunum en þó er það alls ekki þannig alls staðar og ég tók það saman í gögnum sem ég hef undir höndum að innan við 10% þingmanna eru konur í um það bil 60 ríkjum heimsins. Þetta er hins vegar flókið samspil og við sem búum í hinum norrænu ríkjum og evrópsku ríkjum höfum mjög margt að færa fram í þessum efnum. Við höfum skarað fram úr sem betur fer, norrænu ríkin, með pólitíska þátttöku kvenna sem er miklu betri en annars staðar.

Það er athyglisvert að upplifa og lesa samantektir sem gerðar hafa verið um hvernig konur hafa upplifað þessa baráttu sína og þá kemur í ljós að aukin stjórnmálaþátttaka kvenna hefur á margan hátt breytt umræðunni og við finnum það hér á landi og þess vegna er það fagnaðarefni ef konur eru að efla hlut sinn í pólitískri umræðu í heiminum því að það mun breyta þeirri umræðu til góðs.