Konur og mannréttindi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 10:55:11 (5373)

2001-03-08 10:55:11# 126. lþ. 85.94 fundur 356#B konur og mannréttindi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[10:55]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka fyrir þátttökuna í þessari umræðu utan dagskrár. Hún hefur verið sérlega málefnaleg og hv. þm. verið tillögugóðir. Auðvitað er ekki nóg að ræða þessi mál einu sinni á ári á hinu háa Alþingi. Okkur gefast vonandi fleiri tækifæri til þess á komandi mánuðum og missirum. Mig langar til þess að minnast á nokkur atriði sem fram komu í umræðunni og þá sérstaklega mansalið og kynlífsþrælkunina, sem komin er til Íslands hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þetta er líklega brýnasta verkefnið hvað varðar mannréttindi kvenna um þessar mundir.

Einnig eigum við við viðvarandi launamun, kynbundinn launamun að etja. Það virðist ekkert geta hnikað þessum 18--20% sem munar. Hvað varðar konur í útlöndum, vil ég líka minna á það að þó að stríðinu sé lokið eins og stríðinu í Júgóslavíu, þá þarf ekki minna mannafl, stuðning og fjárstuðning í uppbyggingarferlið heldur en í önnur þau ferli sem eru konum til stuðnings. Það er ekki síst með stuðningi við frjáls félagasamtök, við mannréttindasamtök og félagasamtök kvenna sem slíkt starf ber mestan árangur.

Ég ætla líka að leyfa mér að taka upp orð hæstv. utanrrh. um kosti og galla alþjóðavæðingarinnar því að mér sýnist nokkuð ljóst að kostir alþjóðavæðingarinnar hafi algjörlega farið fram hjá þorra kvenkyns. Hins vegar hafa gallar alþjóðavæðingarinnar lent harðar á þeim en körlum og ber líklega mansalið og kynlífsþrælkunin þess rækast vitni.

Að lokum vil ég líka, vegna þess að hæstv. utanrrh. á eftir að svara spurningunni um þróunarsamvinnuna, minna hv. þm. á að það er enn mjög langt í land að Ísland uppfylli það markmið Sameinuðu þjóðanna að veita 0,7% af þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu.