Konur og mannréttindi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 10:57:27 (5374)

2001-03-08 10:57:27# 126. lþ. 85.94 fundur 356#B konur og mannréttindi# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[10:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Spurt var hvar málefni kvenna beri hæst í störfum utanríkisþjónustunnar. Ég tel að það komi skýrt fram í öllum málflutningi okkar innan Sameinuðu þjóðanna og víðar á alþjóðlegum vettvangi. Ég tel að það komi fram í starfi okkar á Balkanskaga, bæði í Bosníu og í Kosovo og síðast en ekki síst tel ég að það komi fram í þróunaraðstoð okkar en síðan 1997 hafa orðið miklar áherslubreytingar í allri starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Stofnunin starfar í æ ríkari mæli að félagslegum verkefnum og verkefnum á sviði heilbrigðismála. Nú er á döfinni hjá þeirri stofnun að gefa út leiðarvísi um það hvernig stofnunin skuli vinna að jafnréttismálum. Sá leiðarvísir á ekki eingöngu að gilda um félagsleg verkefni heldur öll verk sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur. Rauði þráðurinn er að þegar ráðist er í verkefni liggi alltaf fyrir hver áhrifin verða á hag kvenna og barna.

Höfuðmarkmið Þróunarsamvinnustofnunar Íslands er að draga úr fátækt og flestir eru sammála um að það verði ekki gert nema með því að einbeita sér í ríkari mæli að jafnrétti kynjanna og hag kvenna og barna. Það má nefna fjölmörg dæmi um slík félagsleg verkefni: Fullorðinsfræðslu í Namibíu. Í Mósambík starfar í félags- og kvennamálaráðuneytinu íslenskur sérfræðingur í jafnréttis- og félagsmálum. Í Malaví er verið að hrinda í framkvæmd aðstoð við fullorðinsfræðslu stjórnvalda. Þannig hefur stofnunin á mörgum sviðum ræktað þennan málaflokk og ætlar að gera það í æ auknum mæli eins og hér hefur komið fram.

Ég vildi að lokum þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka upp þessi mál. Ég tel það vera til fyrirmyndar að ræða málin á þessum mikilvæga baráttudegi og að við Íslendingar vekjum athygli á hinum hræðilegu kjörum kvenna víða um heim þó að ég sé ekkert að draga úr því að auðvitað þurfum við líka að vekja athygli á því sem miður fer í okkar eigin landi eins og hér hefur verið gert.