Bókasafnsfræðingar

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:03:58 (5377)

2001-03-08 11:03:58# 126. lþ. 85.2 fundur 526. mál: #A bókasafnsfræðingar# (starfsheiti) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breyting á lögum um bókasafnsfræðinga, sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir, er í sjálfu sér ekkert stórmál. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína að það sé afar hæpið að vera að elta með lagasetningum breytingar á námsheitum og starfsgráðum þó að breytt sé að hluta til einhverju inntaki í tilteknu námi. Breytingar á námi geta verið af ýmsum toga, bæði að fylgja eftir almennri þróun og breytingum í náminu almennt. Eins er líka mjög algengt þegar verið er að markaðssetja eða selja samfélaginu breytingar þá er það oft dregið fram og gert.

Það að bókasafnsfræðingar skuli einir verða upplýsingafræðingar, það er eins og hæstv. ráðherra kom inn á, þetta er upplýsingaöld og mikil áhersla lögð á miklar upplýsingar. Við höfum áður lifað upplýsingaöld og ekki verið að hrófla við námsgráðum þó að við höfum lifað slíka öld.

Eigum við þá von á því að fá verkfræði- og upplýsingafræðinga eða lögfræði- og upplýsingafræðinga því að ég geri ráð fyrir að þær stéttir allar telji sig vera að læra mikla upplýsingafræði og telji sig ekki vera eftirbáta annarra stétta í upplýsingafræðum? Ég er í sjálfu sér ekkert á móti því að bókasafnsfræðingar kalli sig líka upplýsingafræðinga en mér finnst afar hæpið og bið hv. menntmn. að skoða út á hvaða braut er verið að fara með því að eltast við svona. Má þá ætla að aðrar námsbrautirnar háskólans fylgist ekki með í upplýsingafræðinni?

Herra forseti. Þetta er mér ekkert stórmál en mér finnst þetta vera frekar ankannalegt.