Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:45:03 (5384)

2001-03-08 11:45:03# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:45]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil biðja ráðherrann að koma eilítið til byggða. Ég nenni ekki að tíunda það endalaust að hér er um vandamál að ræða sem lýtur að sveitarfélaginu Hafnarfirði. Þar er það sýnu stærst þó hjá fóstbræðrum hæstv. ráðherra og þeim sjálfstæðismönnum, þeirri helmingaskiptastjórn sem þar ræður ríkjum. Þar eru málin langstærst í krónum talið. En það er um fleiri sveitarfélög að tefla og raunar hafa sömu flokkar í Reykjanesbæ verið að vandræðast með þetta sama mál.

Auðvitað er öllum ljóst sem nærri hafa komið hvað sveitarstjórnarmönnum gengur til í þessum tilfellum. Þeir eru að reyna að fela fyrir kjósendum skuldbindingar sem þeir hafa undirgengist og þegar gerð er grein fyrir skuldastöðu viðkomandi sveitarfélaga eru þessir milljarðar mínusaðir frá. Það er kjarni málsins þannig að við skulum ekki vera að dansa neitt í kringum það.

Ég skil hins vegar hæstv. ráðherra þannig að hann lofi því hér og lýsi því yfir, ég bið hann um að leiðrétta mig fari ég rangt með, að tekin verði af öll tvímæli þegar hann gefur út þessa reglugerð og að þessar skuldbindingar verði öllum skýrar og ljósar eins og um hverja aðra lántöku væri að ræða. Það er kjarni málsins.

Herra forseti. Þetta var ekki að gerast í gær. Hin ýmsu sveitarfélög hringinn í kringum landið hafa undirgengist þessar skuldbindingar að ég hygg upp á annan tug milljarða króna og enn þá er það ekki skýrt í hinu háa ráðuneyti hvernig með eigi að fara og í langflestum tilfellum eru þessar skuldbindingar einhvers staðar á sveimi í kerfinu og enginn hefur fest á þeim hendur.

Ég hef setið fundi og ráðstefnur með sveitarstjórnarmönnum þar sem menn hafa rifist niður í drep um þetta atriði þannig að ef þetta mál væri eins einfalt eins og hæstv. ráðherra vill vera láta væri auðvitað búið að taka á því. Eftir sem áður tel ég mikla þörf á því hér að við höskum okkur í málið og ljúkum þessu hér. Hæstv. ráðherra þarf greinilega hjálp við.