Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:50:09 (5387)

2001-03-08 11:50:09# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að einkafjármögnun geti sem hægast átt rétt á sér í einhverjum tilvikum. Ég geri hins vegar verulegan mun á því hvort sveitarfélag eignast eignina eftir einhvern tiltekinn árafjölda eða hvort það eignast hana ekki. Mér finnst gilda öðru máli um mannvirki sem sveitarfélagið eignast með tíð og tíma en mannvirki sem þarf kannski að gera nýjan leigusamning um eftir 25 ár upp á nýtt. En þetta er sjálfsagt mismunandi eftir aðstæðum og það er mismunandi hvernig menn kjósa að standa að verkum.

Varðandi fjármagn til sveitarfélaganna þá eru sveitarfélögin afar misjafnlega í stakk búin til að standa í framkvæmdum og þau eru afar misjafnlega sett fjárhagslega. Lánasjóður sveitarfélaga lánar í ýmsar framkvæmdir hjá sveitarfélögunum. Ég hef ekki þær reglur í kollinum en ég veit hins vegar að þau lánakjör sem Lánasjóður sveitarfélaga býður upp á eru með því besta sem kostur er á á markaði á Íslandi í dag.