Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:51:45 (5388)

2001-03-08 11:51:45# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:51]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé hárrétt sem hæstv. ráðherra var að segja. Það gefur manni tilefni til að álykta sem svo að þau sveitarfélög sem velja einkafjármögnun í stærra lagi og það við fjármögnun á húsnæði sem er ætlað til alveg sérstakra nota hljóti að vera í erfiðleikum, hafi ekki talið að þau gætu fjármagnað eðlilega byggingu af þessu tagi og boðið hana út og þess vegna hafi þau sótt í einkafjármagnið. Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni ef menn meta þannig stöðu sveitarfélagsins og velja þá leið út úr neyð eins og er þarna ástæða til þess að láta sér detta í hug að sé á ferðinni. Auðvitað gerir enginn sem fjármagnar slíkt það öðruvísi en að reikna sér tekjur af því, reikna sér arð af því sem hann er að gera. Það er því alveg full ástæða til að gera ráð fyrir að í öllum þessum samningum sé reiknað með því að sveitarfélögin hafi greitt húsnæðið í botn og arð af fjárfestingunni þegar upp verður staðið og að sá sem á þá þann samning við sveitarfélagið sitji eftir með húsnæðið og það tak á sveitarfélaginu að sveitarfélagið þarf auðvitað á slíku húsnæði að halda áfram til skólahalds eða íþróttaiðkana þegar samningstíminn er liðinn.

Þetta er óviðunandi og því miður er ástæða til að halda að það séu einmitt þeir sem síst skyldi sem eru að taka þessi úrræði.