Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:00:06 (5391)

2001-03-08 12:00:06# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir athugasemdir hans. Hann var þó eilítið á röngu róli og því óhjákvæmilegt að leiðrétta hann í þeim efnum. Þannig er með einkafjármögnunarleiðina, rekstrarleigu sem svo hefur verið kölluð, að verkkaupi er í því tilviki sveitarfélögin. Þessi mannvirki eru byggð samkvæmt teikningum væntanlegs leigjanda þannig að það er ekki um neina hagkvæmni eiganda húsnæðisins eða verktakafyrirtækisins að ræða í þeim efnum. Aukinheldur er leigjandinn, sveitarfélagið, eini leigjandinn að húsnæðinu þannig að eigandi húsnæðisins hefur engin ráð til auka nýtni húsnæðisins með því að leigja þriðja aðila það á kvöldin. Það sem hv. þm. lagði til á því bara ekkert við hér.

Í þriðja lagi, af því að hann nefndi það að einkaaðilar væru fetinu framar þegar kæmi að viðhaldi húsnæðis, við skulum segja skólahúsnæðis, hefur leigjandinn borgað fyrir þetta viðhald í framreiknuðum leiguskala 25 ár fram í tímann. Það er kjarni málsins.

Herra forseti. Af því að ég nefni þessi 25 ár þá finnst mörgum það vera afskaplega langur tími. Ég var fyrir skömmu í 40 ára afmæli skóla og telst hann tiltölulega nýr skóli. Þessi tími líður á örskotsstundu og að láta sér koma til hugar að sveitarfélag geti eftir 25 ár úthýst eiganda húsnæðisins af lóðinni er náttúrlega eins og hver önnur þvæla. Hér er um leigulóð að ræða sem yfirleitt er til 99 ára þannig að það fer ekkert saman við 25 ára leigutíma.

Ég met mikils vilja hv. þm. til að leggja umræðunni lið en þarna var hann á röngu róli því miður.