Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:07:06 (5395)

2001-03-08 12:07:06# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. 6. þm. Reykn. séum ekki ósammála í þessu máli. Það er ljóst að það þarf að skýra hvernig með þessar skuldbindingar skuli farið. Leiga er rekstrarkostnaður á því ári sem hann fellur til og þarna er gerður samningur um leigugreiðslur til langs tíma, jafnvel til 25 ára. Málið snýst auðvitað um að draga þessar skuldbindingar fram þannig að þær séu samanburðarhæfar í reikningum sveitarfélaga. Ég held að allir sem hér hafa talað séu sammála um þetta grundvallaratriði, að framsetning fjárhags og skuldbindinga sveitarfélaga sé samanburðarhæf. Okkur greinir aðeins á um hvort við þurfum að taka á þessu með lögum frá Alþingi eða hvort margumtöluð nefnd kemst að niðurstöðu. Það mun auðvitað koma í ljós. Ég held að menn séu almennt sammála um markmiðið, að fjárhagur sveitarfélaganna verði skýr skattgreiðendum í hverju sveitarfélagi og þeim sé ljóst hverjar skuldbindingarnar eru. Hið sama gildir um fjármál ríkis og sveitarfélaga. Ég vona --- ég er kannski bjartsýnni á það en hv. þm. --- að þetta gangi án afskipta Alþingis en það verður að koma í ljós.