Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:18:30 (5398)

2001-03-08 12:18:30# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:18]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur um margt verið gagnleg og ég vil trúa því að í kjölfar hennar fái þessi mál ítarlega skoðun í félmn. þingsins. Ég vil undirstrika það að ég tel ekki vanþörf á og ekki síst í ljósi almennra vangaveltna hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, formanni félmn., sem vakti máls á öðrum þætti málsins sem maður stundum heyrir, að það fyrirkomulag sem hér hefur verið, þ.e. að færa þetta allt yfir rekstur á hverju ári, geti átt rétt á sér og hið hefðbundna fyrirkomulag bókhaldsins um að eignfæra eignir og hafa síðan eignfærða fjárfestingu, gjaldfærða fjárfestingu og rekstur algerlega aðskilinn væri ekkert mjög einfalt mál. Það er einmitt kjarni málsins. Það er það vandamál sem sérfræðingar hafa átt við að stríða.

Ég segi, herra forseti. Reynslan er auðvitað alltaf ólygnust í þessu sambandi og hún er sú að skuldbindingar upp á milljarða og aftur milljarða hafa hvergi verið sýnilegar þegar kemur að því að skoða fjárskuldbindingar sveitarfélaga.

Ég sagði áðan og var að velta því fyrir mér hve miklir peningar væru hér undir. Ég hef þær ekki handbærar. En ég held að mikilvægt sé að við höfum þær á borðum okkar og ætla því í kjölfar þessarar umræðu að skila inn á skrifstofu þingsins fyrirspurn til hæstv. félmrh. þar sem hann upplýsir mig og aðra þingmenn um það hve miklar fjárskuldbindingar sveitarfélaga eru vegna svokallaðrar einkafjármögnunar og rekstrarleigu þar sem sundurliðunum eftir sveitarfélögum og verkefnum er óskað. Ég held að okkur sé mikið gagn í að fá nokkra heildarmynd af því.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ef þetta mál væri svona skýrt og klárt samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum, af hverju er þá verið að setja á nýja nefnd til að fara yfir þessi mál? Hæstv. ráðherra gat um það eins og fleiri hafa gert að lögin væru skýr. Maður skyldi ætla að reglugerðin væri enn þá skýrari. Hann var að gefa út nýja reglugerð 19. desember sl., fyrir tveimur og hálfum mánuði. Sú reglugerð svarar ekki þeirri spurningu sem ég velti upp og frv. tekur á, ekki í einu eða neinu. Eftir sem áður þarf ráðherrann að setja á nýja nefnd til að skoða þessi álitaefni. Er ekki alveg ljóst, herra forseti, að þetta viðfangsefni er kannski ekki alveg jafneinfalt í sniðum eða jafnóumdeilt og maður skyldi ætla eftir þessa almennu umræðu sem mér finnst hafa verið býsna lærdómsrík hvað það varðar að almennt er um það samkomulag að menn fari að anda laganna og þessar skuldbindingar sem og aðrar séu öllum skýrar og ljósar?

Varðandi þetta fyrirkomulag almennt sem ég get í greinargerð um að ég er svo sem ekki að færa sérstaklega í tal en menn hafa eðli máls samkvæmt komið að hversu skynsamlegt það er að fara þá leið fyrir opinbera aðila. Ég get ekki frekar en aðrir kveðið upp neinn stóradóm um það. Reynslan á eftir að sýna fram á það þegar fram líða stundir. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fara okkur afskaplega hægt í þeim efnum. Menn hafa lengri reynslu erlendis frá og hún er eins og ég sagði í framsöguræðu minni afskaplega misjöfn. Ýmis álitaefni og ágreiningsmál hafa komið upp þegar liðið hefur á lok leigutíma, það er ljóst.

Það er einnig hárrétt sem hér hefur komið fram af hálfu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að það skiptir auðvitað miklu máli hvort um kaupleigu er að ræða, þ.e. að sveitarfélagið eða leigutakinn eignist eignina í lok leigutíma ellegar þurfi að taka upp samninga á nýjan leik við eiganda húsnæðisins og staðan er augljóslega mjög veik fyrir leigutaka.

Ég get ekki látið hjá líða þegar menn ræða það hér að ég sat merkilega ráðstefnu um þau mál á síðasta ári í Hafnarfirði. Hún var haldin þar raunar fyrir algera tilviljun af því að hæstv. ráðherra er hrifinn af Hafnarfirði, þess vegna var hún haldin þar en að öðru leyti óháð held ég málefnum Hafnarfjarðarbæjar. Einn frummælanda þar var ágætur kollegi okkar, hv. þm. Gunnar Birgisson sem hefur verið frægur fyrir flest annað en að ganga hart gegn hinu svonefnda frelsi til allra hluta og frjálshyggjuleiðum og því öllu. Hann fór yfir það lið fyrir lið, reyndur maður úr sveitarstjórnarmálum og í verktakabransanum, að þetta væri handónýt leið fyrir sveitarfélög að fara. Sveitarfélög töpuðu peningum í stórum stíl og honum dytti ekki í hug sem oddviti næststærsta sveitarfélags í landinu, þ.e. Kópavogs, að leggja það til að fara slíka leið. Honum kæmi það bara ekki í hug því að hann hefði reiknað þetta út og hann þekkti það bæði sem sveitarstjórnarmaður og ekki síður sem verktaki hvernig þessi kaup gerðust á eyrinni. Ég get ekki annað en tekið dálítið mark á þeim manni í þessu sambandi a.m.k. því að þarna er hann auðvitað allt í kringum borðið og ég held að flokkssystkin hans mörg hver ættu að leggja við hlustir og jafnvel félagar úr ríkisstjórninni, þ.e. úr hinum samstarfsflokknum.

Að lyktum þetta, herra forseti. Ég sagði það í gríni og alvöru áðan en ætla að gera það núna af fullri alvöru að vekja á því athygli sem gerðist í tíðindum frétta í gær af því að við ræðum hér fjármál sveitarfélaga, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir að hann ætlaði núna að samþykkja tillögu Samfylkingarinnar um að lækka tekjuskatt til móts við aukna útsvarsheimild sveitarfélaga um næstu áramót, sömu tillögu og stjórnarliðar felldu í atkvæðagreiðslu í nóvember ef ég man rétt, felldu tillögu sem þeir ætla síðan að taka síðan upp aftur þrem mánuðum síðar og láta verða að veruleika og ég hlakka til þeirrar umræðu alveg sérstaklega. Það verður skemmtileg umræða þegar hæstv. ríkisstjórn kemur með þá tillögu aftur til þings og endurvekur tillögu Samfylkingarinnar sem hún felldi fyrir þrem mánuðum. Og af því að það ber svo vel í veiði að hæstv. ráðherra félagsmála og sveitarstjórnarmála er hjá okkur, þá væri afskaplega fróðlegt að vita hvað ráði sinnaskiptum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og hvað hafi komið upp hjá ríkisstjórninni að hún skuli nú sjá ljós Samfylkingarinnar þremur mánuðum eftir að hún felldi þá tillögu. Það væri fróðlegt að hann gerði sér ferð hingað upp og segði okkur frá því. Verið er að leggja til að skattar á sveitarfélög verði lækkaðir um 1.200 millj. kr. og það mun vafalaust ýta á ýmis sveitarfélög hringinn í kringum landið að nýta slíka heimild um næstu áramót til hækkunar útsvars. En það væri afskaplega gaman að heyra það hvenær og hvernig og af hverju rann upp ljós fyrir ríkisstjórninni og þeir náðu að grípa þarna guð í fótinn og fara að tillögum okkar samfylkingarmanna.