Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:34:59 (5405)

2001-03-08 12:34:59# 126. lþ. 85.3 fundur 482. mál: #A almenn hegningarlög# (starfsmenn Sameinuðu þjóðanna) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:34]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Með frv. er lögð til viðeigandi breyting á lögunum vegna fyrirhugaðrar aðildar Íslands að samningi um öryggi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og tengdra starfsmanna sem gerður var í New York þann 9. des. 1994. Samhliða frv. var lögð fram þáltill. um aðild að samningnum en samningurinn er birtur sem fylgiskjal með þáltill.

Í umræddum samningi er að finna ákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og tengdra starfsmanna við aðgerðir á vegum Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn hefur meðal annars að geyma ákvæði um skyldu til að tryggja öryggi og vernd þessara starfsmanna, um skyldu til að láta lausa eða afhenda þá starfsmenn sem teknir hafa verið til fanga eða hnepptir í varðhald og um glæpi gegn starfsmönnum. Þá eru ákvæði um lögsögu vegna brota gegn starfsmönnunum, varnir gegn glæpum gegn þeim, framsal og um gagnkvæma réttaraðstoð.

Í 10. gr. samningsins er fjallað um refsilögsögu. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins skal hvert aðildarríki um sig gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera í því skyni að ákvarða lögsögu sína yfir þeim glæpum sem falla undir samninginn að því er varðar mál þar sem meintur árásarmaður er staddur á yfirráðasvæði aðildarríkisins og það framselur hann ekki til einhvers annars aðildarríkis sem hefur lögsögu í málinu. Með hliðsjón af þessu ákvæði þykir rétt að reglur almennra hegningarlaga um refsilögsögu verði rýmkaðar til samræmis við samninginn. Því er lagt til að nýr töluliður bætist við 6. gr. laganna þannig að unnt verði að refsa eftir íslenskum lögum fyrir brot sem falla undir samninginn enda þótt það sé framið utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er valdur að því. Ekki er þörf á fekari lagabreytingum vegna aðildar að samningi þessum.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til hv. allshn. og 2. umr.