Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:51:22 (5410)

2001-03-08 12:51:22# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:51]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér í tilefni þessa svars: Hvert þarf ástandið að vera til þess að sé réttlætanlegt að grípa til slíkra aðgerða? Því að hæstv. ráðherra segir að ekki sé útilokað að til þess gæti komið. Konur hafa í marga áratugi búið við það að verulega hallar á konur í launum og þessum hlunnindagreiðslum sem eru notaðar sérstaklega til þess að hygla körlum. Það liggja fyrir úttektir. Það liggja fyrir athuganir, m.a. á vegum félmrn., en ég man nú ekki betur en að ráðherrann hæstv. hafi byrjað sinn feril með því að fara út í það sem var kallað starfsmat, til þess að reyna að rétta hlut kvenna að því er varðar launin og það gengur ekki neitt. Það gengur ekkert. Það er sama hvernig á þessu máli er tekið. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur verið að reyna ýmislegt á sama hátt og ég reyndi í minni tíð sem ráðherra. En okkur virðist ekkert miða áfram. Mér finnst því orðið tímabært að skoða það að grípa til þeirra aðgerða sem við getum með 3. gr. Og ég teldi að það væri rétt af hálfu ráðherrans að hann mundi setja niður nefnd sem skoðaði það hvort rétt væri og eðlilegt að beita þessu ákvæði í 3. gr. og þá með hvaða hætti, vegna þess að það eru margar leiðir sem þar koma til greina.

Ég spyr ráðherrann: Telur hann ekki eðlilegt í fyrsta lagi að styrkja betur kærunefndina með því að hún hafi þá úrskurðarvald til þess að framfylgja sinni niðurstöðu og úrskurðum? Ef hæstv. ráðherra telur það ekki eðlilegt, við hvaða aðstæður telur hann þá eðlilegt að grípa til þessara aðgerða þegar við stöndum frammi fyrir eftir áratuga baráttu, að við erum raunverulega í sömu sporunum? Það liggur fyrir 18% munur sem menn segja að ekki sé hægt að rekja til neins annars en kynferðis. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað þarf þessi munur að vera mikill? Þarf hann að vera 30% til þess að það sé réttlætanlegt að grípa til 3. gr.? Hún var sett á sínum tíma af því að menn töldu nauðsynlegt að beita henni.