Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:54:29 (5412)

2001-03-08 12:54:29# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:54]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu tillaga um að fjmrh. láti fara fram heildarendurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt í slíkum greiðslum milli kynja og virt séu ákvæði jafnréttislaga í því efni. Ég held að það væri mjög fróðlegt að sjá niðurstöðu svona könnunar og það mætti taka þarna ýmislegt fleira inn í, t.d. dagpeningagreiðslur og fleira.

Við erum að ræða þetta núna á 8. degi marsmánaðar, sem er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, og því miður er enn mikill launamunur á milli kynjanna. Það er stílbrot í jafnréttisbaráttunni. Við höfum náð þar mjög langt. Við eigum mjög góð lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, en það er eins og við náum aldrei upp fyrir þetta blessaða glerþak sem oft hefur verið talað um. Það er í rauninni algjörlega ólíðandi að við skulum ekki ná lengra fram í jafnréttisbaráttunni þrátt fyrir allt, en við megum þó ekki gleyma því að við höfum á margan hátt náð mjög langt í jafnréttismálum. Það hefur í rauninni orðið hugarfarsbreyting undanfarin ár. Menn eru miklu meðvitaðri um það að jafna stöðu karla og kvenna og það eru ekki síst karlar sem mér finnst taka meiri þátt í jafnréttisbaráttunni.

En enn eru allt of fáar konur í yfirmannsstöðum. Mig langar að geta þess hér af því nú stendur yfir búnaðarþing að þar eru átta konur núna fulltrúar á móti 50 körlum og konur hafa aldrei verið jafnmargar, en það er í reynd búið að fjölga fulltrúum á búnaðarþingi. Og á Alþingi sitja núna 23 konur. Ég held að það skipti mjög miklu máli að konur og karlar vinni að málum saman á sem flestum sviðum.

Ég vil taka undir með 1. flm. varðandi kærunefnd jafnréttismála. Mér hefur oft þótt ekki farið nægilega mikið eftir úrskurði kærunefndar og menn geri lítið úr úrsurðinum og það finnst mér vera mjög slæmt, því þar fer fram mjög vönduð vinna og mér hefur oft þótt það mjög miður að ekki skuli vera hægt að ganga skrefið til enda. Mér finnst vanta mjög mikið á það og ég held að kominn sé tími til að ræða það. Og það var gott að heyra það hjá ráðherra áðan að hann ætli að standa fyrir málþingi um launamun kynjanna og þá er hægt að leggja áherslu á þetta, því víða er pottur brotinn.

En lögin okkar eru skýr og ég held að eitt það sem best var gert á síðasta ári hafi verið fæðingarorlofið. Nú hafa feður sjálfstæðan fæðingarorlofsrétt sem ég tel mjög mikilvægt. Ég vil óska þess að á þessu ári náum við enn lengra í jafnréttisbaráttunni.