Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 13:39:50 (5414)

2001-03-08 13:39:50# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hv. þm. hafi eitthvað misskilið tillöguna sem hér er rætt um. Hún fjallar ekki um launakerfi sem slíkt, launastrúktúrinn eða hvernig launakerfið er uppbyggt, hve mikill hluti af launum hjá hinu opinbera er vegna hlunninda og duldra greiðslna og hvað er vegna beinna launagreiðslna. Það væri út af fyrir sig eðlilegt að ræða um. Ég deili því með hv. þm. að það er rétt og eðlilegt að hafa launakerfið að eins sýnilegt og hægt er og eins opið og hægt er þannig að sé ekki gert eins og er tilhneiging er til, þ.e. að fela hinar raunverulegu launagreiðslur. Það heldur einmitt við og heldur uppi launamisréttinu milli kynjanna. Það er verið að fela hinar raunverulegu launagreiðslur. Þarna get ég alveg tekið undir með þingmanninum.

Hv. þm. fjallaði um dagpeningagreiðslur og hinar og þessar hlunnindagreiðslur og af hverju væri ekki fjallað um það í þessari tillögu. Þetta er líka fullgilt umræðuefni. Lífeyrisréttindin sem þingmaðurinn nefndi þurfa einnig að koma til umræðu. Ég er tilbúin til að skoða tillögu með hv. þm. um það.

Þessi tillaga er hins vegar flutt að gefnu tilefni, vegna svara við fyrirspurnum mínum til tveggja ráðherra, annars vegar viðskrh. og hins vegar fjmrh. Þar kom berlega fram að bifreiðastyrkir eru notaðir til að hygla frekar körlum en konum í kerfinu. Í dæmi viðskrh. var það meira að segja svo að kærunefnd jafnréttismála hafði fengið til umfjöllunar mál vegna bankanna, bæði Landsbanka og Búnaðarbanka, þar sem úrskurðað var að um mismunum væri að ræða og brot á jafnréttislögum af því að mismunandi bílastyrkir væru greiddir í nákvæmlega sambærilegum stöðum innan bankakerfisins. Um það fjalla þessar tillögur en ekki almennt, eins og hv. þm. fór út í, dagpeningagreiðslur, lífeyrisréttindi, hlunnindagreiðslur almennt eða hvernig launakerfið er uppbyggt. Meðan það er svona uppbyggt þá hlýtur maður að taka á því þannig, eins og ég geri í þessari tillögu.