Sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 13:46:19 (5418)

2001-03-08 13:46:19# 126. lþ. 85.6 fundur 178. mál: #A sinubrennur og meðferð elds á víðavangi# frv., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur frv. til laga á þskj. 186, um breytingu á lögum nr. 31/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Ár hvert verður verulegt tjón á gróðri og mannvirkjum af völdum elda sem kveiktir hafa verið til að brenna sinu. Hætta á óbætanlegum umhverfisspjöllum hefur oft vofað yfir vegna elda sem hafa verið kveiktir til að eyða sinu. Hætta á umhverfistjóni eykst ár frá ári vegna stækkandi skógarreita. Einnig hefur hætta á skemmdum á mannvirkjum aukist mikið vegna fjölgunar sumarhúsa og mannvirkja sem tengd eru notkun þeirra og útivist.

Menn hefur nokkuð greint á um nytsemi þess að brenna sinu. Rannsóknir á áhrifum sinubruna á gróðurfar hafa ekki verið miklar en þó eru til rannsóknir sem gefa vísbendingar um að einhver jákvæð áhrif verði af sinubruna. Fækkun sauðfjár og þar af leiðandi minna beitarálag á högum hefur dregið úr þörf bænda fyrir því að flýta grassprettu og engin þörf er fyrir sinubrennur á löndum sem notuð eru til hrossabeitar.

Hagur bænda af sinubrennslu virðist ekki vera augljós en hætta sú sem stafar af þeim eldum sem loga víðs vegar um sveitir landsins á hverju vori er afar mikil og vaxandi. Þess vegna er lagt til að sinubrennur verði bannaðar.

Eins og ég sagði áðan hafa ekki farið fram miklar rannsóknir á áhrifum sinuelda. Mér tókst þó að komast yfir rannsóknir og ýmsa gagnlega vitneskju sem kom fram á ráðunautafundi á vegum Búnaðarfélags Íslands og ég fékk leyfi hjá því ágæta félagi til þess að hafa sem fylgiskjöl með frv. Ég ætla að grípa, með leyfi hæstv. forseta, niður í þessi gögn og þá er það fyrst í kafla sem Sturla Friðriksson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins hafði á fundinum hjá þeim hjá Búnaðarfélaginu sem var notaður til að fara yfir þessi mál. Þar stendur:

,,Landnámsmenn sviðu víði- og birkikjarr kringum fyrstu bæjarstæðin. Til þessa bendir fjöldi örnefna, svo sem Sviðugarður, Brennigerði, Váli og Vælugerði. Brenndur skógur var nefndur sviðningur, en orðið váli þýðir ,,bolir og rætur brenndra trjáa eða trjástubbar á sviðinni jörð`` (Björn M. Ólsen 1910). Sviðningar þessir voru ekki alltaf gerðir af ásettu ráði, en urðu stöku sinnum vegna óhappa, ef óvarlega var farið með eld, eins og sagt er í frásögn af Ölkofra, sem gerði til kola í Þingvallahrauni skömmu eftir aldamótin 1000:

,,Eldurinn hljóp í skóginn. Brann sá skógur fyrst allur, er Ölkofri átti, en síðan hljóp eldur í þá skóga, er þar voru næstir, og brunnu skógar víða um hraunið. Er þar nú kallað á Sviðningi``. (Ölkofra saga 1953).

Í lagabókum okkar er gert ráð fyrir því, að sina sé brennd og þar eru ákvæði fyrir því, að sá biðji um leyfi hjá nágrönnum sínum, sem ætlar sér að brenna sinu (Grágás). Valdi sinubruninn tjóni, er þess jafnvel krafist að greitt sé fyrir það, ef ekki hefur áður fengist leyfi nágranna (Jónsbók).``

Sina hefur helst verið brennd að vorlagi um sunnan- og suðvestanvert landið. Hefur gildi sinubrennu verið nokkuð til umræðu á seinni tímum.``

Segja má að verulega hafi dregið úr sinueldum á undanförnum árum og þeir séu nánast einskorðaðir við suðvesturhornið og Suðurland. Í lokaorðum segir Sturla Friðriksson í því erindi sem ég vitna til:

,,Augljóst er að við sviðninguna brennur sinan og mosinn og jarðvegurinn verður opnari og vaxtarrýmið meira fyrir nýjan gróður. Geta því skriðul grös og fræplöntur aukist og fjölgar þeim á kostnað mosans. Sinan og mosinn einangra svörðinn á óbrenndu landi, en við brunann opnast svörðurinn og ljós fær greiðan aðgang að vaxtarsprotanum. Þar fer klaki fyrr úr jörð á vorin en úr óbrenndu landi. Við brunann eru steinefni sinunnar leyst úr læðingi og verður jarðvegur því frjórri en áður. Er eftirtektarvert að á brenndu landi er nýgræðingur dökkgrænn og auðugur af eggjahvítu.

Fé sækir mikið í gróður sviðins lands. Var talið að fráfærufé héldist kyrrt í högum á sviðnum blettum þar sem sina hafði verið brennd um vorið.

Enda þótt sinubrenna geti verið til bóta þarf að gæta þess að brenna ekki skóglendi. Eins væri nær að nýta afrakstur mýranna betur með beit að sumri svo ekki þurfi að brenna þar sinu vorið eftir.``

Árni Snæbjörnsson frá Búnaðarfélagi Íslands var með erindi á þessari ráðstefnu sem ég vitnaði til áðan um áhrif sinubruna á gróður og jarðvegshita og vitnar þar í tilraun á Hvanneyri frá 1965--1969. Ég vitna, með leyfi hæstv. forseta, í samandregið yfirlit en hann segir:

,,1. Sina og uppskera innihalda meira af köfnunarefni, fosfór og kalí þar sem brennt er og mest þar sem oftast hefur verið brennt. Í uppskeru var efnaaukning mest í fyrra slætti.

2. Sauðfé virðist sækja heldur meira í brennt en óbrennt land.

3. Tegundafjöldi plantna er eitthvað meiri þar sem brennt var og virðist brennslan hafa haft mismunandi áhrif á plöntutegundirnar, því að sumum fjölgaði en öðrum fækkaði. Örfáar tegundir hurfu við brennsluna og nýjar komu inn. Hér er þó um smávægilegar breytingar að ræða.

4. Sinuaska hafði ekki áburðargildi á hafra.

5. Enginn munur er á lofthita í 30--50 cm hæð yfir brenndu landi og óbrenndu.

6. Jarðvegshiti í 5 cm dýpi er um 1,0°C hærri í brenndu landi en óbrenndu að degi til en lítill munur er að næturlagi.``

Svo segir hann í niðurstöðunum:

,,Niðurstöður þær sem hér hafa fengist virðast sýna, að sinnubrennsla getur átt fullan rétt á sér þar sem sina er mikil og ef eðlilegrar varúðar er gætt. Hins vegar ber að hafa í huga að tilraunin stóð ekki í mjög langan tíma og það sem að framan er sagt á eingöngu við um þær aðstæður sem þarna voru. Frekari rannsóknir þyrfti að gera áður en endanlega er fullyrt um áhrif sinubrennslu.``

Guðmundur Halldórsson hjá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá kannaði áhrif sinubruna á smádýralíf. Í lokaorðum erindis hans segir:

,,Nokkur breyting á gróðurfari varð í reitunum við brunann og er um það fjallað í öðru erindi, sem birtist í þessu riti``, þ.e. erindi Sturlu Friðrikssonar sem ég nefndi áðan.

,,2. Þau gögn sem búið er að vinna benda einnig til verulegs munar á smádýralífi milli brenndra reita og óbrenndra. Virðist mestur munur vera á fjölda stökkmors, en í þeim sýnum sem nú er búið að vinna (fyrsti mánuður eftir bruna) hefur fjöldi þess í brenndum reitum aðeins verið brot af því sem veiðst hefur í gildrur í óbrenndum reitum.``

Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Magnús H. Jóhannsson frá Líffræðistofnun háskólans höfðu gert athugun á vistfræðilegum áhrifum sinubruna og í tengslum við þá athugun hafði verið gerð könnun meðal bænda í Árnessýslu þar sem bréf með spurningalista til 50 bænda hafði verið sent af handahófi. Skrifleg svör náðust frá 33 bændum en hringt var í fleiri og fengust þannig svör frá 35. Í ljós kom að af þeim sem svöruðu voru aðeins tveir sem höfðu ekki brennt sinu á þessu svæði, annar þeirra var eingöngu með hross en hinn var svínabóndi. Hinir 33 sögðust allir brenna sinu og voru svör þeirra nánast á einn veg. Margir töldu sig ekki geta svarað því hversu langur tími liði milli þess að sama landið væri brennt en þó er greinilegt að sá tími er oft mjög skammur og sumir brenna sama landið annað hvert ár. Menn voru almennt sammála um gagnsemi sinubruna þótt sumir létu í ljós efasemdir um ágæti þeirra er til lengri tíma væri litið. Nokkrir nefndu einnig að til skaða væri að brenna land með stuttu millibili. Athyglisvert var að flestir töldu að áhrifin fælust ekki síst í því að búfé næði betur til nýgræðings og tóku sumir fram að þeir teldu áhrifin ekki felast í öðru. Margir töldu að skepnur sæktu frekar í brennt land en aðrir kostir við að brenna sinu voru helstir taldir vera þeir að gróður yrði aðgengilegri, lostætari og kjarnmeiri og tæki fyrr við sér á vorin.

Svo segir hér, og ég vek athygli á því að ekki ber öllum rannsóknunum saman en í þessum kafla um jarðklaka segir:

,,Daginn sem brennt var, mældist meðalþykkt niður á klaka 10,7 cm á brennda svæðinu en 13,7 cm á því óbrennda. Viku seinna var þykkt niður á klaka komin í 20,8 cm á því brennda og 22,2 cm á því óbrennda. Í annarri viku eftir brunann var jarðvegur alls staðar þíður. Það virðist því ljóst að sinubruninn flýtti ekki, a.m.k. ekki þetta vorið, fyrir því að frost færi úr jörðu en ekki reyndist marktækur munur á meðalþykkt niður á klaka viku eftir brunann. Þetta stangast bæði á við hald manna um að klaki fari mun fyrr úr brenndu landi og einnig við niðurstöður Sturlu Friðrikssonar (1963) en í hans rannsókn sem gerð var í Borgarfirði vorið 1962, fór frost fyrr úr brenndri en óbrenndri mýri. Fram kemur að þetta ár (1962) var óvenju mikið frost í jörðu.``

Brennda svæðið grænkaði fyrr en það óbrennda og þremur vikum eftir brunann var nýgræðingur marktækt meiri á brennda svæðinu en því óbrennda. Eftir það minnkaði munurinn og var ekki tölfræðilega marktækur.`` --- Ég vek athygli á því að eftir að þrjár vikur voru liðnar var ekki tölfræðilega marktækur munur á gróðri eftir sinubrennslu. ,,Þekja grasa var meiri á brennda svæðinu þremur vikum eftir að brennt var en munurinn var tæplega tölfræðilega marktækur fjórum vikum eftir brunann.``

Í lokaniðurstöðum þessa kafla stendur:

,,Túlkun niðurstaðna gróðurmælinganna er því miður erfið fyrir þá sök að í annarri viku eftir brunann var hleypt fé inn á svæðið og greinilegt var að það sótti á brennda svæðið. Munurinn milli brennda og óbrennda svæðisins gæti því virst minni en skyldi. Upphaflega stóð til að gera einnig uppskerumælingar á gróðri en hætta varð við þá fyrirætlan vegna þessarar beitar. Fyrirhugað er nú að endurtaka þessar athuganir ...`` --- Ekki held ég að þessar endurtekningar hafi farið fram.

Ég ætla, hæstv. forseti, í sjálfu sér ekkert að setja út á það að menn hafi brennt sinu á undanförnum árum. Ég tel hins vegar að ástæða sé til að fara yfir þessi mál nú að nýju vegna þess að þörf manna fyrir það að brenna sinu sé ekki sú sama og áður og önnur atriði skipti kannski ekki minna máli og jafnvel miklu meira máli en sú hagkvæmni sem bændur telja sig hafa af því að brenna sinu. Skaðar vegna sinubruna verða á hverju ári og ég hef ekki hugsað mér að fara nákvæmlega yfir þá skaða sem hafa orðið í gegnum tíðina. Ég ætla aðeins að benda á óhöpp sem urðu í fyrra vegna sinuelda en svo ég nefni dæmi þá varð t.d. 18. apríl árið 2000 árekstur í reykjarmekki frá sinubruna suður í Flóa og mjög slæm slys hafa orðið í slíkum eldum. Allir þekkja að skaði hefur orðið á trjágróðri, girðingum, húsum og ég nefni að þennan sama dag var sinueldur slökktur við mjög erfiðar aðstæður í Borgarfirði. Þar voru kölluð út björgunarsveit og slökkvilið vegna sinuelda í landi Ánastaða á Mýrum. Þar tóku 20 manns þátt í slökkvistarfi.

Í september sl. var maður sýknaður af ákærum fyrir að raska arnarvarpi með sinueldi þannig að stundum hljótast málaferli af sinueldum. Sinueldar kvikna mjög víða á vorin eins og við þekkjum. Þeir eru ekki allir til komnir, og reyndar fæstir, vegna bænda og þeirra elda sem bændur kveikja. Þegar bændur hefja brennslu sinu á vorin eru ýmsir fleiri sem vakna til lífsins sem vilja kveikja elda. Ég vil benda á að t.d. í fyrravor voru 11 útköll hjá slökkviliðinu í Árnessýslu og reyndar líka 11 árið áður vegna sinuelda og ekki færri en 113 útköll á Reykjavíkursvæðinu vegna sinuelda og 66 árið áður.

Nú er ekki hægt að setja jafnaðarmerki á milli þess að banna sinuelda og elda af því tagi sem slökkviliðið á hér í höggi við á hverju vori en ég held þó að ef bannað væri að kveikja elda af þessu tagi, kjarr- og sinuelda, og ef það væri skylda slökkviliðs að mæta á staðinn og slökkva í hverju einstöku tilfelli þegar eldur kemur upp og ef þessir reykjarsvælubólstrar, sem liggja yfir sveitum landsins dögum saman á vorin hætta að verða til, að auðveldara verði að koma í veg fyrir að börn og unglingar kveiki elda af sama tagi á sama tíma.

Ég verð að segja eins og er að það hefur lengi farið í taugarnar á mér að sjá þessa elda. Ég hef sjálfur tekið því þátt í því að reyna að koma í veg fyrir tjón af slíkum eldum. Ég hef séð hurð skella býsna nærri hælum gagnvart mjög dýrmætum skógarreitum vegna elda sem bændur hafa kveikt sjálfir til þess að eyða sinu á landi sínu og auðvitað hefur maður líka fylgst með fréttum sem eru á hverju vori af eldum sem hafa valdið tjóni. Ég tel, hæstv. forseti, að aðrir hagsmunir séu orðnir miklu ríkari núna en þeir hagsmunir sem bændur hafa af því að eyða sinu með eldi. Sauðfé hefur fækkað verulega mikið. Menn þurfa ekki á sama hátt á þessu að halda. Hrossum hefur fjölgað mikið og mjög stór svæði sem áður var mikil sina á er það ekki lengur því að það er engin sina á landi sem hross hafa gengið á, og svo held ég líka að hægt sé að fullyrða að beitiland sé í langflestum tilfellum nægilegt hjá bændum og þeir þurfi þess vegna ekki á þessu að halda.

Ég ætla ekki að hafa umræðuna lengri. Ég legg til að frv. verði vísað til umvhn. að lokinni umræðunni. Ég hef lokið máli mínu.