Sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:04:56 (5419)

2001-03-08 14:04:56# 126. lþ. 85.6 fundur 178. mál: #A sinubrennur og meðferð elds á víðavangi# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég er meðflm. þessa frv. um breytingu á lögum nr. 61/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, með síðari breytingum. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem fram kom í máli framsögumanns en ég tel mjög mikilvægt að hv. þingmenn taki þetta frv. til vandlegrar skoðunar. Það kemur skýrt fram í ýmsum fylgiskjölum með frv. að þeir hagsmunir er lúta að umhverfinu og þeim umhverfisspjöllum sem orðið hafa og geta orðið af sinubrunum, að það að gæta þess að sinubrunar eyðileggi ekki land, skipta okkur meira máli nú orðið heldur en þeir hagsmunir sem bændur gætu haft af því að brenna sinu.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar hefur ýmislegt breyst í búskaparháttum bænda og þjóðarinnar á undanförnum árum og áratugum og það er auðvitað alveg ljóst að víða, ekki bara í sveitum landsins heldur einnig í þéttbýlinu, tekur sig upp yfirleitt vor hvert mikið sinufár. Oftar en ekki eru þar reyndar því miður á ferð börn eða unglingar sem kunna fótum sínum ekki forráð en sem betur fer hefur oftast verið hægt að forðast stórslys, en við þetta má ekki búa. Það er mjög mikilvægt að löggjafinn taki af skarið með þetta mál og því vil ég hvetja hv. þm. til þess að kynna sér þetta vandlega. Nú mun málinu verða vísað til hv. umhvn. þar sem við fulltrúar í henni munum ræða það í þaula en ég hvet hv. þingmenn til þess að skoða frv. með opnum huga.