Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:16:17 (5422)

2001-03-08 14:16:17# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., Flm. SvH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ekki verður sagt að mikill áhugi sé ríkjandi hjá hv. þm. um þau mikilsverðu mál sem hér eru á dagskrá og til umræðu. Það hefur hent æ ofan í æ að þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur verið helmingur þingmanna á bekkjum.

Á þskj. 231 eigum við Pétur Bjarnason, varaþm. Frjálslynda flokksins, till. til þál. um kosningar til Alþingis og þrátt fyrir að önnur mál séu mikilsverð má þó fullyrða að þetta mál eigi hvað brýnast erindi við þjóðþingið.

Hér verður ekki rifjuð upp saga kjördæmamálanna á Íslandi. Það mátti heita að linnulaust stæðu þrætur um þau mál alla síðustu öld. Ágreiningsefnið var misvægi atkvæða þar sem svo sérstaklega háttaði til að einn þjóðmálaflokkurinn, Framsfl., hafði yfirburðaáhrifastöðu í þjóðþinginu og þar af leiðandi gagnvart þjóðmálum vegna hinnar ósanngjörnu kjördæmaskipunar. Átti hún sér þó að sumu leyti sögulegar rætur og ekki að öllu óeðlilegar, þ.e. gömlu sýsluskiptinguna sem lögð var til grundvallar. Öll baráttan beindist að því að jafna atkvæðisréttinn og koma lýðræðisskipan á í þjóðfélaginu. Þetta reyndist langvinnur og örðugur leikur.

Hin síðari ár þegar líða tók á öldina var reynt að leysa þetta mál með því að fjölga þingmönnum, sem var að sjálfsögðu alveg óþarft, úr 42 í 52 og síðan upp í 60 og 63 af því að aldrei þóttu tök á að ganga á fjölda þingmanna landsbyggðarinnar.

Árið 1931 hlaut Framsfl. meiri hluta á Alþingi með 35% atkvæða á bak við sig. Löngum var það reyndar svo að reynt var að leika á kjördæmaskipanina og kosningafyrirkomulagið sem þá var í gildi. Þess er skemmst að minnast að 1956 gerðu tveir flokkar, Framsfl. og Alþfl., til þess mjög djarfa tilraun að ná meiri hluta á Alþingi. Þeir höfðu rúmlega 1/3 af atkvæðum á bak við sig.

Ég rifja það upp að árið 1994, 25. október það ár, sameinuðust ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna á fundi um yfirlýsingu þar sem þess var krafist að misvægi atkvæða eftir búsetu yrði afnumið þegar á þeim vetri. Í þeirri samþykkt kemur fram, með leyfi forseta:

,,Það er samdóma álit ungs fólks úr öllum stjórnmálaflokkum að núverandi kosningalög séu ekki á vetur setjandi þrátt fyrir að þau hafi aðeins verið notuð við tvennar kosningar. Síðasta endurskoðun kosningalaganna mistókst.``

Þetta er 1994 og þetta er verið að tala um, lögin frá 1987 eða 1986 sem gengu í gildi við kosningarnar 1987. Og áfram segir í ályktuninni, með leyfi forseta:

,,Við erum sammála um að ekki er hægt að búa við kosningalög sem mismuna þegnum þessa lands. Núverandi misvægi atkvæða er óþolandi brot á grundvallarmannréttindum. Kosningalög eru hornsteinn lýðræðis í hverju landi og þar eiga allir að sitja við sama borð.``

Menn lögðu mikla áherslu á að kosningalögunum yrði þegar breytt þannig að fullkomið jafnrétti tæki gildi og því markmiði yrði helst náð fyrir þær kosningar sem þá fóru fram, 1995. Það var sett upp nefnd, eins og hér er reyndar lagt til, allra stjórnmálaflokka til að endurskoða kjördæmaskipan og kosningalög. Það fórst þannig úr hendi að ég held að slíkt hafi aldrei sést fyrr. Oft var brotalöm á breytingunum en ég held að aldrei hafi þvílíkt hent eins og henti við síðustu endurskoðun laganna og sá óskapnaður í kjördæmaskipan var settur upp sem við höfum nú fyrir augum. Enn á ný var staðfest og lögleitt að helmingsmunur skyldi vera á atkvæðisrétti fólks í þéttbýli og á hinni svokölluðu landsbyggð.

Í lok 20. aldar er þetta lögleitt áfram, atkvæðavægið 1:2. Til þess að ná þeim áfanga er búinn til sá óskapnaður og afstyrmi sem kjördæmaskipanin er. Kjördæmið frá botni Hvalfjarðar og norður í Fljót og síðan frá Siglufirði, og lá við að yrði vestur að Sandgígjukvísl á Skeiðarársandi en mér skilst að það sé að Eystrahorni eftir því sem nýjustu fregnir herma. En fólkið sem býr hér, 2/3 hluti þjóðarinnar, er afgreitt með því að hafa helmingsrétt á móti öllum hinum. Misvægi atkvæða gat átt nokkurn rétt á sér á sinni tíð en sá tími er löngu liðinn og einfalt að breyta kjördæmafyrirkomulaginu þannig að allt landið verði eitt kjördæmi enda næst jöfnuður ekki fram öðruvísi. Reynt er að ná þessum ójöfnuði með því að hluta Reykjavíkurkjördæmi í tvennt. Mér skildist, án þess að ég hafi nennt að kynna mér þann óskapnað sem kom frá þessari nefnd, að það ætti að endurskoða milli hverra kosninga þau mörk sem dregin eru í höfuðborginni og kjördæmamörkin kunni að verða færð milli blokka eftir því hvernig íbúafjöldinn skipast.

Við þetta er að sjálfsögðu ekki búandi. Þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa síðustu áratugina eyða öllum röksemdum fyrir því að þetta gamla fyrirkomulag um misvægi atkvæða geti átt rétt á sér.

Ég tek það fram að í tillögugerðinni sjálfri er talað um að haft verði til hliðsjónar að þingmönnum verði fækkað í 52. Kannski er 51 nær lagi. Hér er enn fremur lagt til að þingmenn sem verða ráðherrar kalli inn varamenn sína. Nú eru ráðherrar 12 og ekki líklegt að þeim verði fækkað ef að líkum lætur. Þannig væri að mjög við hæfi að sama tala alls yrði í þingsölum 63, 51+12. Enn fremur er gerð tillaga um að kosning fari fram með tvennum hætti. Helmingur verði kosinn á landlista, sem flokkarnir skipa, og hinn helmingurinn af 200 manna lista þar sem persónukosning gæti farið fram.

Ég ætla ekki nánar út í þær sakir en bendi á að ýmsar þjóðir hafa mjög eftirbreytnivert fyrirkomulag á slíkum kosningum. Ég nefni þar Íra, Þjóðverja, Finna og fleiri mætti nefna. Persónukjörsaðferðin gæti komið í stað þess sem kallað hefur verið prófkjör fram að þessu, sem er ekkert annað en skrípi af lýðræði. Svo er komið og hefur löngum tíðkast að menn eru farnir að kaupa sig inn á Alþingi í gegnum hin svokölluðu prófkjör þannig að peningamagnið ræður ríkjum. Það kann vel að vera að ýmsum þyki að nú, þar sem auðvaldið hefur náð öllum undirtökum á Íslandi, sé einmitt rétt að gera valdaaðstöðu þeirra sem besta þannig að þeir geti ráðið öllum þingsætunum líka.

Ég minnist þess, þó ég vilji ekki nefna nöfn í því sambandi, að sannarlega mátti sýna fram á að í eitt skipti fyrir alþingiskosningar fór um 1 þúsund manna flokkur ungmenna milli þriggja flokka, Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. og kom í hvert eitt skipti einum manni að í öruggt þingsæti í Reykjavík. Ég veit að ýmsir hv. þm. vita hvað við er átt.

Tillaga er gerð um að birting skoðanakannana verði bönnuð viku fyrir kosningar. Það er óeðlilegt að skoðanakannanir geti haft áhrif fram á síðasta dag, spurningin er hvort það ætti ekki að vera hálfur mánuður fyrir kosningar. Sem dæmi um hin óeðlilegu áhrif sem skoðanakönnun getur haft eða öllu heldur beiting hennar var í síðustu kosningum þegar Dagblaðið þóttist sjá að fylgi Frjálslynda flokksins dygði ekki til að fá kjörinn þingmann og auglýsti allan föstudaginn fyrir kosningalaugardaginn að þeir sem kysu Frjálslynda flokkinn köstuðu atkvæði sínu á glæ. Blaðið benti þá til skoðanakönnunar sem það hafði gert daginn áður. Þar auglýstu menn kappsamlega frá morgni til kvölds.

Ég veit auðvitað hver stjórnaði þessu og hvaðan þau tilmæli um þessar aðgerðir voru komnar. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Þetta var greinilega misnotkun á skoðanakönnun og enginn vafi á því að mönnum er eins og allir vita annt um kosningarréttinn sinn. Þeir eru ekkert ginnkeyptir fyrir því að kasta honum á glæ. Við urðum þess varir að þetta bitnaði á flokki okkar, að hve miklu leyti skal ég ekkert um fullyrða en menn höfðu, t.d. á Vestfjörðum, ólygnar sannanir fyrir áhrifum þessarar aðferðar.

Spyrja má hvernig það má vera að þingmenn, t.d. fyrrv. þingflokks Alþfl., skyldu samþykkja aðferðina sem hér var komið á með hinum nýju kosningalögum og kjördæmaskipan. Ég veit af hverju þingmenn Sjálfstfl., sem á sínum tíma börðust fyrir lýðræðinu og jafnræði atkvæðisréttarins, hafa horfið frá því, forustumenn í þeirra röðum. Ég komst að því 1986, held ég að það hafi verið, þegar ég var að gefast upp á þeim fjölda tillagna sem gerðar voru við kjördæmaskipanina. Ég lagði þá til að landið yrði gert að einu kjördæmi. Þá ætluðu þeir vitlausir að verða sem fremstir sátu á þingbekkjum frá Reykjavíkurkjördæmi og Reykjanesi vegna þess að í skjóli misvægis til þess að jafna kosningamismununar sem gerð var milli kjördæma þá sátu þeir fyrir, efstir á listum frá þessum kjördæmum, öllum ráðherraembættunum og hrömmsuðu þau öll til sín. Það var gjarnan reynt að hafa eins og einn, undantekningu sem sannaði regluna, utan af landi í ráðherrastóli. Ætli það geti verið að alþýðuflokksmenn, t.d. á Reykjanesi, hafi fallið í þessa freistni líka eða þingmenn sem hafa búið í þessum kjördæmum, að vilja vera þar sem allt er sjálfbært og þurfa ekki helst að hafa fyrir neinu eins og landsbyggðarmenn þurfa? Væri ekki skynsamlegra að allur þingheimur bæri ábyrgð á öllu þessu litla landi, þar sem nú má komast til ystu annesja á jafnlöngum tíma og það tók að fara á milli sveitabæja á hestum á sinni tíð?

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Eitt er víst að þó að þessari tillögugerð verði tekið fálega nú af þeim sem ráða þeim gamla ósið að leggja aldrei eyrun við því sem stjórnarandstaðan leggur til þá mun núverandi valdhöfum ekki duga að skella skolleyrum við þessari tillögu nema fram undir næstu kosningar. Svo mikil áhersla verður þá lögð á framgang þessa máls og slíkrar breytingar sem auðgerð er með þessum hætti.

Herra forseti. Ég legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni vísað til síðari umr. og allshn.