Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:31:43 (5423)

2001-03-08 14:31:43# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hér talaði hv. þm. Sverrir Hermannsson sem hefur um langan tíma talað úr þessum ræðustól, þekkir til vinnubragða hér og þekkir söguna. Það er mjög áhugavert fyrir mig og þingheim allan að fá frekari upplýsingar hjá hv. þm. hvað það er sem hann telur vera óhæft þegar prófkjör voru tekin upp. Ég man ekki betur en að talað hafi verið um það þá að ólýðræðislega væri unnið í flokkunum, ungir menn ættu enga möguleika og það væri flokksforustan og þeir sem á þingi sætu, þingmennirnir, sem héldu svo um stjórnvöl stjórnmálaflokkanna að engir aðrir kæmust að. Þess vegna var tekið upp prófkjör, ef ég man rétt. Hvernig öðruvísi ætti að fara með ef prófkjör verða ekki viðhöfð?

Ég er alveg sammála því, eins og hér var komið inn á, að prófkjör voru skaðleg fyrir hina smærri flokka, en þau hafa ekki verið það fyrir Sjálfstfl.

Annað sem ég vildi spyrja hv. þm., sem talar af reynslu varðandi það að ráðherra skuli víkja sæti þingmanns: Hvað er það sem við þingmenn sjáum ekki og áttum okkur ekki á í starfi ráðherrans sem er þess eðlis að hann starfi ekki hér sem slíkur? Einnig varðandi skoðanakannanirnar. Ég tel rangt að banna skoðanakannanir. Í Frakklandi, ef ég man rétt, er viku fyrir kosningar bannað að birta skoðanakannanir. Ég tel að það sé rangt, það sé gegn lýðræðinu. Hvers vegna á þá ekki líka yfirleitt að banna pólitískar greinar í dagblöðum, pólitíska umfjöllun í sjónvarpi og útvarpi?