Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:35:41 (5425)

2001-03-08 14:35:41# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að rifja upp söguna en það kom allt í einu upp í mínu minni einhverjar sögusagnir af því að þessi háttur hafi verið tekinn upp í síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar þannig að þetta er þá ekki alvont þó vont hafi verið þá. (SvH: Sönnun fyrir gæðum.) Nei, það er ekki sönnun fyrir gæðum, hv. þm.

Hins vegar er náttúrlega allt önnur málsmeðferð á prófkjörum nú en var þá og menn geta ekki safnað kjörseðlum og kosið fyrir marga þannig að þær breytingar hafa á orðið. En látum það liggja á milli hluta.

En varðandi skoðanakannanirnar. Ég mismælti mig og biðst afsökunar á því ef ég hef ekki talað nógu skýrt. En að banna skoðanakannanir viku fyrir kosningar. Réttlætiskennd mín segir að óeðlilegt sé að gera það vegna þess að við hljótum þá að banna allt sem er skoðanamyndandi og birtist í fjölmiðlum viku fyrir kjördag. Eigum við þá ekki að banna allar pólitískar greinar í blöðum, banna pólitíska pistla í útvarpi og sjónvarpi? Ég tel að þetta sé mál sem ekki sé eðlilegt ef við ætlum að hafa opið og lýðræðislegt þjóðfélag eins og við teljum að Ísland sé.