Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:37:17 (5426)

2001-03-08 14:37:17# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., Flm. SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Flm. (Sverrir Hermannsson) (andsvar):

Hvað um það, herra forseti, ef viðkomandi fjölmiðill sem skoðanakönnun gerir er ekki heiðarlegur heldur hallvikar til úrslitum? Segjum svo, eins og Dagblaðið var a.m.k. að hálfu útibú frá Sjálfstfl. við síðustu kosningar, að ekki hefði verið fullkomlega hægt að treysta þeim niðurstöðum sem þar komu en voru samt notaðar með þessum hætti undir lok kosningabaráttunnar.

En aðallega varðandi prófkjörin er þetta að segja. Vilja menn taka upp þann hátt sem hafður er á í Bandaríkjunum að menn geti komist áfram til æðstu valda í þjóðfélaginu, á þingi og í ríkisstjórn í valdi peninga? Að menn geti keypt sig inn á þing? Það er ekkert leyndarmál að það hafa menn gert og það þekkjum við mörg dæmi til og meira að segja svo að prófkjörin hafa fælt frá hina verðmætustu menn sem hefðu ella viljað koma til liðs við þingræðið svo ég nefni það sem dæmi. Þetta er nokkuð sem við þurfum að athuga. En ég vil hafa frjálsræði fólks til þess að velja úr fjölda manna. Það er ekki eðlilegt heldur skrípamynd af lýðræði ef menn geta farið milli flokka og neytt atkvæðisréttar síns til þess að hafa áhrif á úrslit þar eins og við höfum þekkt að viðgengist hefur í hvert skipti sem prófkjör fer fram. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta og meira að segja var þetta tíðkað á sínum tíma á þann veg að menn réðu úrslitum um þá sem valdir voru til framboðs.