Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:39:19 (5427)

2001-03-08 14:39:19# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna framkomu þessarar þáltill. Ég held að í henni séu mál sem við getum kannski flest verið sammála um að þarf að ræða sig í gegnum. Við gerum okkur grein fyrir því að kjördæmaskipanin nýja verður ekki langlíf. Það eru margar orsakir fyrir því.

Ég held að skoðanakannanir viku fyrir kosningar sé líka þarft mál, og fara að dæmi Frakka. Af því að það kom fram í ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar að Frjálslyndi flokkurinn hefði lent illa í meðferð manna í skoðanakönnunum, þá má segja það sama um Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð þar sem eitt af stóru dagblöðunum smurði fylginu yfir allt landið nokkrum vikum fyrir kosningar og reiknaði okkur engan mann inn á þing og hafði gríðarleg áhrif í allri kosningabaráttunni.

En ég vil spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki ástæðu til þess þar sem við erum í mjög miðstýrðu samfélagi að setja inn í svona bollaleggingar hugmyndir um úttekt á því að ,,dissentralísera``, þ.e. minnka miðstýringu ríkisvaldsins og framkvæmdarvaldsins sem hluta af því dæmi að gera landið t.d. að einu kjördæmi. Ég held að við séum sögulega þannig sett, Alþingi Íslendinga, að vegna þess að við fluttum kansellíið heim frá Danmörku þá höfum verið með það ótrúlega mikið sem framkvæmdarvaldsstofnun í heild sinni og þess vegna held ég að hugmyndin um landið sem eitt kjördæmi þurfi að byggja á því að endurskipuleggja gjörsamlega ríkiskerfið og framkvæmdarvaldið. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann geti verið sammála mér í því að sú umræða þurfi einnig að fara fram.