Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:41:55 (5429)

2001-03-08 14:41:55# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að hjá Samfylkingunni hefur sú stefna verið uppi að landið eigi að verða að einu kjördæmi. Þeir sem tóku þátt í að koma á þeirri skipan sem nú gildir voru margir hverjir með digrar yfirlýsingar um að þeir teldu það vera meira sem þrautalendingu sem yrði að líta á sem skref í þá áttina að landið yrði gert að einu kjördæmi.

Ég sat ekki á Alþingi þegar ákvörðunin var tekin um þetta. Við sem vorum kosnir á þing við síðustu alþingiskosningar áttum engan kost annan en segja annaðhvort já eða nei við því sem hér var búið að leggja til og það hefði frestað málinu ef það hefði verið fellt eftir kosningar núna síðast þannig að þetta varð niðurstaðan. Hinu er ekki að leyna að við höfum þá skoðun að gera eigi landið að einu kjördæmi.

Ég vil þó bæta því við í sambandi við það að ég tel mjög nauðsynlegt að efla sveitarstjórnarstigið í landinu. Í tengslum við það að landið verði gert að einu kjördæmi verði til öflug sveitarfélög sem geta tekið við meiri verkefnum frá ríkinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það gerist í tengslum við þessa breytingu vegna þess að ætla má sem svo að Alþingi geti þá frekar staðið undir nafni sem löggjafarsamkoma og létt af sér þeim hlutverkum að vera eins konar þjónusta við framkvæmdarvaldið eins og Alþingi hefur verið í allt of ríkum mæli. Þess vegna þarf að flytja meira af verkefnum eins og mögulegt er til sveitarfélaganna, en til þess að þau geti tekið við þeim þurfa þau að verða öflugri.

Ég er aftur á móti ekki sama sinnis og kemur fram í þessari tillögu hvað varðar það að ráðherrar eigi að hverfa af þingi og að kalla eigi inn þingmenn í staðinn fyrir þá. Ég tel að með því sé kosningaúrslitunum raskað. Við getum t.d. farið yfir það hvernig málum væri háttað núna ef þessi regla væri í gildi. Þá væri það þannig að hér væru sestir inn á þing sex framsóknarmenn til viðbótar við þá sem voru kosnir á þing, til viðbótar við ráðherrana sem væru komnir út og væru jafnáberandi í pólitík og þeir eru sem ráðherrar en hefðu fengið sex liðsmenn til viðbótar. Nú veit ég ósköp vel að Framsfl. mundi ekki veita af því enda má svo sem sjá það í salnum núna að ekki væri amalegt að hafa sex fótgönguliða í viðbót úr þeim flokki til að tala fyrir málum. (Gripið fram í.) Já, að því leyti til mundi þetta koma sér vel, en ég er sem sagt ekki sammála þessari aðferð og tel að þetta raski kosninganiðurstöðunum og menn verði bara að búa við það áfram að ráðherrar haldi hér þingsætum.

[14:45]

Menn hafa líka leitt talið að prófkjörum. Þau eru auðvitað hluti af því lýðræðisfyrirkomulagi sem við höfum en afskaplega ófullkomin og gölluð aðferð. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að þingflokkarnir og stjórnmálaflokkarnir í landinu ættu að setjast yfir það mál og athuga hvort hægt væri að finna einhverja leið til að koma einhverju viti yfir slíka hluti.

Ég bendi á að einu sinni fyrir margt löngu héldum við prófkjör fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akranesi. Við náðum samkomulagi milli allra þeirra flokka sem þar buðu fram um að hafa prófkjörið sama daginn í sama húsinu og nota sömu kjörskrána. Við vorum ekki skuldbundin til að nota sömu aðferðir í prófkjörinu, eingöngu sama daginn í sama húsi og nota sömu kjörskrána sem kom í veg fyrir að menn gætu gengið á milli, menn urðu að velja sér þann flokk sem þeir tóku þátt í prófkjörinu hjá.

Gallinn á þessu var hins vegar sá að þetta virkaði eins og forkosning og menn geta í slíkum tilfellum orðið fyrir einhvers konar pólitískum áföllum vegna úrslita sem komu þá í ljós. Þó er miklu skárra að búa við slíka áhættu en að búa við það að menn gangi milli prófkjöra og taki þátt í kannski mörgum prófkjörum. Ég nefni bara dæmi sem ég man líka vel eftir. Í Ólafsvík fóru fram þrjú prófkjör fyrir margt löngu. Í þeim prófkjörum tóku þátt framsóknarmenn, sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn. Samanlagt held ég það hafi verið um 130% af kosningabærum mönnum í Ólafsvík sem tóku þátt í þeim prófkjörum. Þó var fylgi Alþb. ekki með verra móti í þeim kosningum sem á eftir komu þannig að þetta segir sína sögu um hvers konar vitleysu prófkjör geta lent út í og að fólk telji að það sé allt í lagi að taka þátt í prófkjöri þó maður ætli ekkert að kjósa viðkomandi flokka. En það er bara ekkert í lagi. Það er óeðlilegt. En það er fjöldi fólks í landinu sem lítur þannig á að eðlilegt sé að taka þátt í prófkjöri þó að maður hafi aldrei ætlað að styðja viðkomandi flokk. (Gripið fram í.) Já, það er hægt að benda á æðimörg dæmi um þetta og ég er ekkert feiminn við að gera það því að ég held að menn þurfi á þessari umræðu að halda. Þetta er óeðlilegt og með einhverjum hætti þarf að stöðva svona fyrirbrigði sem skemma fyrir lýðræðinu, að það hafi eðlilegan framgang. En það er kannski ekki aðalatriðið í því máli sem hér er til umræðu. Þetta stóra mál er auðvitað til umræðu og þarf að vera það. Ég held að menn þurfi að nota tímann á þessu kjörtímabili til að horfa lengra fram þannig að næsta skref verði tekið sem allra fyrst. Ég sé enga forsendu fyrir því að menn standi gegn því að gera landið að einu kjördæmi úr því sem komið er.

Þau stóru kjördæmi sem hafa verið búin til núna verða ekki viðráðanleg fyrir þá sem eiga að þjóna þeim. Enn þá er til staðar misvægi atkvæða sem engin ástæða er til að hafa. Ég er líka sannfærður um að þingmenn munu líta á sig sem þingmenn alls landsins ef þeir yrðu kosnir af einum lista og þeir munu kappkosta að sinna líka landsbyggðinni. Ef einhver græðir á því að landið verði gert að einu kjördæmi þá eru það hinar dreifðu byggðir.