Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:49:51 (5430)

2001-03-08 14:49:51# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ef ég hef skilið hv. þm. Jóhann Ársælsson rétt þá taldi hann rétt að samþykkja þessa vitlausu kjördæmabreytingu frekar en að gera ekki neitt á síðasta ári. Mér fannst þetta afskaplega undarleg röksemdafærsla. Ég er hjartanlega sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni að þessi kjördæmabreyting er arfavitlaus. Það var svo merkilegt að heyra í hv. þingmönnum þegar leið að lokum þessa máls í fyrra og endanlegri afgreiðslu að nánast hver einasti þingmaður virtist vera þeirrar skoðunar að þetta væri hrein vitleysa og della. En nú er komin skýringin á því af hverju menn hafa samþykkt þetta. Það er vegna þess að það betra illt að gera en ekki neitt, gera einhverja vitleysu frekar en að gera ekki neitt. Nú fer ég að skilja málið og nú fer ég að skilja af hverju við vorum aðeins þrír sem greiddum atkvæði gegn þessari vitleysu á endasprettinum. En mér finnst þetta furðuleg röksemdafærsla og er á því að betra hefði verið að una aðeins lengur við gömlu kjördæmaskipanina og komast að einhverri vitrænni niðurstöðu heldur en að búa við þá kjördæmaskipan sem nú hefur verið samþykkt. Ég er sammála hv. þm. Sverri Hermannssyni um það að þessi kjördæmaskipan verður ekki langlíf.