Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:52:49 (5432)

2001-03-08 14:52:49# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki þýðir fyrir þá þingmenn sem sitja á þingi í dag og sátu ekki á síðasta kjörtímabili að skorast undan ábyrgð á þeirri vitlausu samþykkt sem hér var gerð vegna þess að það þurfti að samþykkja þetta í tvígang, á síðasta kjörtímabili og svo eftir síðustu kosningar. Þeir sem samþykktu þetta endanlega á síðasta ári voru auðvitað þeir sem sitja á þingi í dag, þeirra á meðal hv. þm. Jóhann Ársælsson vænti ég. Við sitjum uppi með þessa dellu vegna þess að menn samþykktu eitthvað sem þeir eru nánast allir sannfærðir um að hafi verið hrein vitleysa. Það kemur fram nánast sama við hvaða þingmann maður talar. Allir eru sannfærðir um að þetta verði ekki langlíft, þetta sé tóm della og þetta gangi ekki upp. Samt samþykktu hv. þm. þetta í hrönnum. Ekki þýðir að koma svo hingað í dag og segja: Ja, ég ber enga ábyrgð af því að ég var ekki á þingi á síðasta kjörtímabili. Það gengur ekki upp.