Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:55:30 (5434)

2001-03-08 14:55:30# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af þeirri till. til þál. sem hv. þm. Sverrir Hermannsson var að flytja hér sem tekur á ýmsum þáttum sem varða kjördæmaskipan og kjör til Alþingis.

Ég vil segja það, herra forseti, að ég get tekið undir margt af því sem þar kemur fram og er mjög hlynntur tillögu um að endurskoða kjördæmaskipunina og fagna því að hún skuli vera komin fram. Ég kom til þings á sama tíma og hv. þm. Jóhann Ársælsson, vorið 1999, og þurftum við þá að taka þátt í því að greiða atkvæði um þau lög sem þá lágu fyrir um breytingar á kjördæmaskipan og breytingu á kjöri til Alþingis og var ég andvígur því. Ég tel að sú kjördæmaskipan sem var þá búin til og við eigum að kjósa eftir næst sé mikill óskapnaður. En kannski er það besta við hana að hún er svo herfilega vitlaus að sennilega verður hún fljótlega lögð af. Það er sennilega aðalkosturinn við þá breytingu sem gerð var á kjördæmaskipaninni þegar hin stóru og miklu landsbyggðarkjördæmi voru búin til. Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þurfa að ferðast frá Alþingishúsi og ekkert mjög langt geta reynt að setja sig í spor okkar sem sitjum í landsbyggðarkjördæmunum og þurfum að sinna kjördæmi sem nær t.d. frá Siglufirði að Höfn í Hornafirði eða Norðurl. v. og Vestfirðir að Hvalfjarðargöngum. Það er ekkert smávegis svæði sem menn eiga að þjóna. Hvernig í ósköpunum eiga menn að geta sinnt því svo vel sé? Að maður tali ekki um þann sem hér stendur sem þarf jafnframt að þjóna þá sínu gamla kjördæmi, sem hann er kosinn fyrir núna og ætlar að reyna að gera eftir bestu getu, sem nær þá frá Hrútafirði.

Eins og ég segi er þetta óskapnaður og það besta við þetta er hvað þetta er vitlaust og hvað erfitt verður að framkvæma þetta. En samt sem áður verðum að búa við þetta í a.m.k. tvennar kosningar, því er verr og miður. Sem gamall alþýðuflokksmaður er ég mjög hlynntur því að landið verði gert að einu kjördæmi og atkvæðisréttur manna jafnaður þar af leiðandi 100% en geri jafnframt þá kröfu til þess að lífskjör séu jöfnuð í leiðinni. Ég er með öðrum orðum hlynntur því að atkvæðisréttur sé sá sami, sama hvar menn búa á landinu. Ég vil ekkert endilega hafa sem íbúi á Siglufirði tvöfalt vægi á við þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu en tek það skýrt fram og vil leggja áherslu á það að ég vil jafna lífskjör í leiðinni.

Ég er t.d. ekki sammála því að lífskjör manna úti á landi í landsbyggðarkjördæmunum, sem hafa atkvæðavægið 1:2, skuli vera skert stórlega, t.d. með þungaskatti sem íþyngir þar mjög og dregur úr lífskjörum fólks á þessu svæði. Stórkostlegur kostnaður felst í því hvernig þungaskatturinn virkar og hleðst ofan á vöruverð o.s.frv. Ég er ekki hlynntur því að ég sem íbúi úti á landsbyggðinni sem vil senda unglinginn minn í skóla til höfuðborgarsvæðisins þurfi að borga fyrir það stórkostlegar upphæðir umfram þá sem hér sitja og ganga yfir götuna í skólann sem ríkið byggir og ríkið rekur öðruvísi en það aðgengi til náms sé jafnað fullkomlega, ekki 1:2 eins og atkvæðisrétturinn heldur 1:1. Ég er mjög hlynntur því. Ég er mjög hlynntur því að ef þeir einstaklingar úti á landsbyggðinni, sem hafa þennan aukna atkvæðisrétt þurfa að koma til lækninga suður á hátæknisjúkrahúsin og þar sem mesta og besta þjónustan er og bestu læknarnir, að það kosti ekki stórkostlegar fjárfúlgur eins og það gerir í dag að fara frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins til þess að sækja sér læknisþjónustu sem ríkið byggir og rekur 100%. Þetta er með öðrum orðum, herra forseti, misvægi lífskjara sem er sjálfsagt og eðlilegt að jafna fullkomlega.

Það má taka ótal fleiri dæmi um misvægi lífskjara milli landsbyggðarfólks og höfuðborgarsvæðis. Þess vegna segi ég alveg hiklaust: Við skulum jafna atkvæðisréttinn fullkomlega með því að gera landið að einu kjördæmi. Því er ég hlynntur ef við tökum þessar leiðir í leiðinni og jöfnum lífskjör fólks.

Gaman er að segja frá því, vegna þess að ég vil halda því fram að þessari kjördæmabreytingu hafi verið troðið í gegnum Alþingi, að hæstv. forsrh. skipaði svokallaða byggðanefnd á meðan þetta var í vinnslu, sem sagt á síðasta kjörtímabili. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að sitja í þeirri nefnd fyrir hönd Alþfl. Þetta var ágætisnefnd og skilaði mörgum góðum tillögum en eftir á að hyggja var þetta ekkert annað en gulrótarnefnd hæstv. forsrh. til þess að búa til ákveðinn pakka fyrir landsbyggðarþingmenn innan Sjálfstfl. sem voru að andmæla og vildu ekki fara þessa leið. Ég hef svo áður rætt á hinu háa Alþingi framkvæmdina á þeim tillögum sem þar komu fram og þeim gulrótum sem lagðar voru fyrir framan þá hv. þm. Sjálfstfl. sem voru að andæfa að þær gulrætur eru einhvers annars staðar en hjá íbúum landsbyggðarinnar sem þetta átti að hjálpa. Þær eru sennilega einhvers staðar í ruslakörfu. Með öðrum orðum hefur gengið ákaflega hægt að jafna lífskjörin með þeim tillögum sem þessi þverpólitíska nefnd lagði til og var einhuga um.

Herra forseti. Það er margt í þessari tillögu sem vert væri að ræða betur en tíminn leyfir ekki. Ég vil hins vegar segja enn fremur að ég er dálítið skotinn í þeirri tillögu sem hér kemur fram um að það skuli banna, þó að ég sé dálítið hræddur á að hafa þetta orð á, að það skuli banna birtingu skoðanakannana viku fyrir kosningar. Ég mundi frekar segja að æskilegt væri að reyna að ná um það einhverju heiðursmannasamkomulagi á milli stjórnmálaflokka og þeirra fjölmiðla sem gera þessar kannanir sem eru margar hverjar ágætar og birta þær. Þetta er stöðubirting skulum við segja. Ég er dálítið skotinn í þeirri hugmynd að ekki eigi að birta skoðanakannair viku fyrir kosningar. Ég hefði frekar viljað að það yrði gert með heiðursmannasamkomulagi milli fjölmiðla og stjórnmálaflokka í stað þess að setja það í lög og banna það frá Alþingi. Mér leiðast svona bönn. En það getur vel verið að þess þurfi í restina ef ekki tekst eitthvert samkomulag um að koma því á.

Hins vegar er ég heldur ekki sammála því og vil láta skoða það að leggja blátt bann við prófkjörum stjórnmálaflokka. Ég hef reyndar haldið því fram og sagt áður að prófkjör væru óþörf ef við breyttum kosningalögum þannig að listar, sem bornir eru fram til kosninga, hvort sem það er til sveitarstjórnar eða Alþingis, séu með ónúmeruðum sætum, fólk sé sett á ónúmeraðan lista og sá kjósandi sem kemur og ætlar sér að kjósa þennan lista í kjörklefanum hefur jafnframt það vald að raða fólki niður til sætis frá 1., 2., 3. o.s.frv. Það væri langbesta leiðin og þar með væru prófkjör óþörf.