Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:14:53 (5437)

2001-03-08 15:14:53# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., Flm. SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Flm. (Sverrir Hermannsson) (andsvar):

Herra forseti. Í sambandi við það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi að það væri verið að fjölga þingmönnum í kjördæmi, þá er þetta einhver misskilningur. Til að mynda hafa verið hið fæsta 15 þingmenn fyrir landshlutann frá Hvalfjarðarbotni að Siglufirði upp í 18 þingmenn, ef ég man rétt, vegna uppbótarsæta sem þeim hefur verið úthlutað. Þeim mun auðvitað fækka, enda ekki annars kostur til þess að ná einhverju meira vægi atkvæða.

En spurningin er ekki sú að vísa til þess að það hafi verið enn verra ástand áður um ójafnvægi atkvæða, heldur það að við getum engan veginn sætt okkur við að það sé helmingsmunur. Með engu móti. Við getum ekki sætt okkur við neitt annað en að það sé fullkomið jafnvægi atkvæða.

En ég vil að öðru leyti þakka fyrir þessa umræðu. Hér hafa allir fulltrúar þeirra flokka sem mættir eru í þingsal lýst yfir nauðsyn þess að jafna atkvæðisréttinn og gera landið allt að einu kjördæmi. Ég átti ekki von á því að þingmenn Framsfl. sætu undir þessari umræðu, enda mundi seint draga til þess að þeir léðu réttlætinu í þessu máli atfylgi sitt. En ég vænti þess þess vegna að þetta mál komi hið fyrsta úr nefnd og að við setjumst niður og reynum að ná skynsamlegri niðurstöðu í þessu undirstöðumáli lýðræðisins í landinu.