Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:20:38 (5441)

2001-03-08 15:20:38# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið hin skemmtilegasta umræða. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast mikið við minn góða samflokksmann, Guðmund Árna Stefánsson, sem sat fyrir hönd Alþfl. í þessari nefnd. Við höfum áður farið í gegnum það.

Ég held að það hafi áður komið skýrt fram að ég vildi leggja niður þessi gömlu kjördæmi og það atkvæðamisvægi sem þar var og vildi stíga skrefið til fulls með því að gera landið að einu kjördæmi, að allir hefðu jafnan rétt. Ég hafði reyndar þann fyrirvara á, sem virðist vera ákaflega erfitt að koma fyrir, að jafna jafnframt lífskjör manna, sama hvar þeir búa á landinu. Með öðrum orðum er ég ekki sammála því að íbúi á Raufarhöfn hafi fjögur atkvæði en íbúi í Reykjavík eitt atkvæði en ég er heldur ekki sammála því að íbúi á Raufarhöfn þurfi að borga margfalt meira fyrir ýmsa samfélagslega þjónustu umfram íbúa Reykjavíkur. Ég er tilbúinn til að vinna að því og hef áður sagt að við skulum jafna þetta allt saman fullkomlega.

Þegar við erum að tala um vegalengdir í þessu nýja kjördæmi og í nýjum kjördæmum, og miðum við nýju kjördæmaskipunina, þá er það þannig að þó svo við værum með eitt kjördæmi, þá yrði þetta sennilega gert svipað og í fótbolta, ef við erum að stilla upp meistaraflokki FH í leik, að mönnum yrði skipt niður á framboðslistann, þennan eina framboðslista, eftir kjördæmum, eftir landshlutum og menn yrðu látnir dekka það svæði og spila hvort sem það væru sóknarmenn, varnarmenn eða eitthvað þannig.

Rétt svo í lokin ítreka ég það sem ég sagði áðan um misvægi atkvæða. Við áttum í Norðurl. v. einu sinni þingmann sem hét Finnur Torfi Stefánsson. Hann hafði flugpróf. Það væri flott fyrir þennan ágæta mann að bjóða sig fram núna með flugréttindin og geta flogið milli svæða.

Ég vil svo rétt í lokin bjóða samflokksmanni mínum í kjördæmayfirferð í vor sem mun hefjast í Hrútafirði og fara austur um og við munum enda á Eystrahorni. En ég bið hann að taka frá eins og 10--15 daga í það ferðalag.