Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:22:51 (5442)

2001-03-08 15:22:51# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það þarf ekkert að orðlengja þetta. Við erum í meginatriðum sammála um að það þarf jöfnuð í atkvæðavægi, það þarf jöfnuð í lífskjörum hér á landi hvort sem það er milli landsbyggðar og þéttbýlis ellegar milli þeirra ólíku stétta sem landið byggja.

En við komum alltaf að þessu sama vandamáli. Í þessu hefur togstreitan verið fólgin alla tíð, að sumir hafa viljað tengja þetta mjög náið saman en aðrir hafa viljað halda þessu talsvert aðskildu. Það hefur gert það að verkum að umræðan hefur verið býsna skemmtileg og fróðleg um kjördæmamálið árum og áratugum saman en aldrei mjakast eitt einasta hænufet. Um það stóð valið fyrir einhverjum missirum síðan þegar þessi vinna var í gang sett 1997 ef ég man rétt í þeirri kjördæmanefnd sem þá var skipuð að menn héldu áfram þessari umræðu fram og til baka, út og suður og kæmust ekki hænufet ellegar að mönnum miðaði eitthvað á leið. Ég held að þrátt fyrir allt, og ég ætla ekki að hafa stærri orð um það, hafi mönnum miðað mjög verulega í rétta átt, auðvitað ekki alla leið. Þá var spurningin: Átti að taka þessi skref í rétta átt eða átti að sleppa þeim? Það var aldrei neinn vafi í mínum huga að við áttum að taka þessi skref þó að þau væru kannski allt of smá fyrir suma.