Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:24:48 (5443)

2001-03-08 15:24:48# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja sem ég flyt ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni, Jóhanni Ársælssyni, Sigríði Jóhannesdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Kristjáni L. Möller, Bryndísi Hlöðversdóttur og Gísla S. Einarssyni.

Það er skoðun mín að þó að mörg brýn verkefni séu aðkallandi í þjóðfélaginu þá séu það reyndar tvö sem standa nokkuð upp úr og beri að taka á. Auk þess máls sem við fjöllum um, þá er það ástandið á leigumarkaðnum. En hér erum við að fjalla um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja og ég held að flestir geti verið sammála um að þetta er sá hópur sem er aðkallandi að bæta kjör hjá og þetta er sá hópur sem hefur orðið út undan í góðærinu.

Það er skoðun mín að hæstv. heilbrrh., sem er viðstödd þessa umræðu og ég vil þakka fyrir það, hafi svo sannarlega hug á að bæta kjör þessa hóps og hún hefur á margan hátt sýnt það en ég held að erfiðleika hennar sé fyrst og fremst að finna í ríkisstjórninni og hún hafi ekki stuðning við það sem hún gjarnan vildi gera til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Ég vil líka nefna það hér að ég held að mikil málafylgja bæði Öryrkjabandalagsins og Samtaka aldraðra á umliðnum árum sé vonandi að skila sér ef ríkisstjórnin lætur af því verða sem öryrkjum og öldruðum hefur verið lofað, þ.e. að til þeirra komi mjög mikil kjarabót núna um miðjan apríl nk.

Sú tillaga sem við ræðum hér um fjallar um það að fela ríkisstjórninni í samráði við samtök aldraðra og öryrkja að koma á afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega svo að enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín. Þá skal sérstaklega taka tillit til sérstöðu ungra öryrkja sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Samningur um afkomutryggingu á samkvæmt tillögunni að taka gildi frá og með 1. janúar 2001, sem nú er liðinn, og á samkvæmt tillögu okkar að vera undirstaða nýrra laga um almannatryggingar.

Það hefur lengi verið á borðum margra heilbrigðisráðherra að fara í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu og er það mjög brýnt úrlausnarefni en engu að síður getur það ekki beðið að taka á afkomumálum aldraðra og öryrkja eins og hér er lagt til.

Til að ná því markmiði sem að er stefnt með þessari tillögu á að taka upp viðræður milli stjórnvalda og samtaka lífeyrisþega um nýjan samning um afkomutryggingu sem komi til framkvæmda um næstu áramót --- þessi tillaga var lögð til fyrir áramótin --- og verði síðan undirstaða nýrra laga um almannatryggingar. Ég held að það sé staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að velferðarkerfið á Íslandi er miklu veikara en annars staðar á Norðurlöndum og útgjöld ríkissjóðs hér mun minni en annars staðar gerist. Opinber útgjöld til elli- og örorkulífeyrisþega eru t.d. miklu lægri hér á landi en í flestum OECD-löndunum.

Ég vil halda því fram að í því efnahagsumhverfi sem við búum við nú sé mjög brýnt að hafa öflugt velferðarkerfi sem tryggir að enginn þurfi að þola fátækt eða öryggisleysi. Í löndum þar sem óheft frjálshyggja og markaðshyggja er allsráðandi í stefnu stjórnvalda, eins og gætir mjög í stefnu þessarar ríkisstjórnar, hefur bilið milli ríkra og fátækra breikkað. Þetta hefur líka gerst á Íslandi. Atvinnu- og ráðstöfunartekjur þeirra tekjuhærri í þjóðfélaginu hafa á undanförnum árum aukist mun meira en þeirra tekjulægri, þannig að misskiptingin hefur vaxið.

Það er það sem við höfum verið að sjá t.d. líka varðandi kjör aldraðra og öryrkja að bilið hefur sífellt verið að breikka milli lágmarkslauna í landinu og lífeyris, en lengst af, fyrir um áratug síðan héldust nokkurn veginn í hendur lægstu laun í landinu og lágmarkslífeyrir.

Ég held að það sé ekkert ofsagt um það að stór hluti öryrkja er undir skilgreindum fátæktarmörkum sem notuð hafa verið bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu og var sú viðmiðun notuð í t.d. rannsókn OECD-landanna um tekjuskiptingu á árinu 1998 frekar en 1999, herra forseti. Í skýrslu sem forsrh. lagði fyrir þingi fyrir tveimur til þremur árum, um stöðu öryrkja almennt, kom fram að 3.400 af 7.900 öryrkjum væru með á bilinu 40--60 þús. kr. í heildartekjur og 43% öryrkja fengju engar greiðslur úr lífeyrissjóðum, sem er afar athyglisvert, og flestir öryrkjar sem á annað borð fengu greiðslur úr lífeyrissjóðum voru með á bilinu 10--30 þús. á mánuði úr sínum lífeyrissjóði.

[15:30]

Gerður hefur verið ýmiss konar samanburður á hve bilið hefur breikkað milli lífeyrisgreiðslna og launa, m.a. hefur komið fram hjá Öryrkjabandalaginu að árin 1995--1999 hækkuðu lágmarkslaun um 52% en örorkulífeyrir og tekjutrygging einungis um 17,4%. Ég held að það alvarlegasta sem þessi ríkisstjórnin hefur gert hafi verið að slíta á tengsl launa og lífeyris eins og gert var á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé sama hvaða mælikvarði er notaður, hvort sem það eru lágmarkslaun, launaþróun, launavísitala, allir þessir mælikvarðar sýna að lífeyrisþegar hafa dregist langt aftur úr öðrum hópum og því ekkert ofsagt að öryrkjar og aldraðir hafa ekki fengið það sem þeim ber af góðærinu.

Samtök aldraðra hafa einnig sett fram samanburð sem sýnir hve kjör lífeyrisþega hafa dregist verulega aftur úr, að grunnlífeyrir og tekjutrygging voru samtals 51,7% af meðaldagvinnulaunum verkamanna á árinu 1991 en 1999 var hlutfallið komið niður í 43,8%. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún kannist við þessa tölu og hvort sú tala sem Samtök aldraðra hafa teflt fram sé notuð sem ein af þeim forsendum sem sú nefnd sem fjallar um auknar bætur og aukna tryggingu fyrir lífeyrisþega noti sem viðmiðun til grundvallar. Vegna þess að ef þetta viðmið er notað til grundvallar þyrfti grunnlífeyrir og tekjutrygging að hækka um 18% til þess að lífeyrisþegar haldi stöðu sinni gagnvart verkafólki. Þá erum við að tala um að auka lífeyrisgreiðslur um 3--4 milljarða kr. til að hlutfallið milli dagvinnulauna verkamanna og lífeyrisgreiðslna, þ.e. grunnlífeyrir og tekjutrygging, sé það sama nú og var árið 1991. Ég held því að ef verið er að tala um að gera eitthvað raunhæft í þessu efni, þá sé ekki hægt að skila minna til aldraðra og öryrkja nú á vormánuðum en þessum 3--4 milljörðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki hægt að treysta því að niðurstöðu sé að vænta um bætt kjör öryrkja og aldraðra 15. apríl? Því að ég geri ráð fyrir að við séum að tala um lagabreytingar í því sambandi og spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé líklegt að við séum að tala um lagabreytingar sem Alþingi þyrfti þá að fjalla um. Ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að ráðherra er ekki í stakk búin til þess að gera þinginu grein fyrir því hver niðurstaða verður þar sem nefndin hefur ekki skilað af sér en ég geri þó ráð fyrir að lagabreytingar þurfi að koma til.

Ég vil einnig spyrja ráðherrann að því hvort nefndin hafi það verkefni eða þær leiðbeiningar frá ríkisstjórninni að gera sérstakar úrbætur fyrir unga öryrkja en á það hefur t.d. Öryrkjabandalagið lagt áherslu. Það hefur verið með tillögu um að bæta sérstaklega kjör ungra öryrkja sem hafa orðið fyrir varanlegri örorku 20 ára eða yngri og er á þá leið að grunnlífeyrir þeirra nemi ekki lægri upphæð en tiltekinni fjárhæð sem á sínum tíma var 51 þús. þannig að gert yrði sérstakt átak að því er varðar það að bæta stöðu ungra öryrkja. Þó að hæstv. ráðherra geti ekki upplýst okkur um það hvað muni verða á borði hennar í aprílmánuði sem hún kynnir örorkuþegum og lífeyrisþegum, þá spyr ég hana hvort hún geti gert okkur grein fyrir því erindisbréfi sem nefndin hefur að vinna eftir þannig að það geti varpað einhverju ljósi á það í hvaða farvegi nefndin er að vinna í sínu verki vegna þess að það hjálpar auðvitað líka til í meðferð þessarar tillögu fyrir þá nefnd sem fær það verkefni að skoða þessa tillögu.

Ef miðað er við nýlega kjarasamninga, herra forseti, stefnir í að grunnlífeyrir og tekjutrygging haldi áfram að lækka sem hlutfall af launum verkamanna og verður hlutfallið að óbreyttu komið niður í 42,4% árið 2003. Árið 1989 námu lífeyrisgreiðslur 80,2% af lágmarkslaunum verkakarla en þetta hlutfall var 60,5% árið 1998 og 64% á sl. ári. Ég geri mér alveg grein fyrir því að lífeyrisþegar voru ekkert of sælir af kjörum sínum, t.d. í niðursveiflu í efnahagslífinu 1988 og 1993 en þá var þó miklu betur reynt að tryggja að lífeyrir öryrkja og aldraðra fylgdi lágmarkslaunum.

Ég vil einnig spyrja ráðherrann um þær breytingar sem urðu með lagasetningunni 1998 því að þá tók ríkisstjórnin á því að reyna að lagfæra það sem hafði verið gert með lagasetnngu 1995, þ.e. að slíta á tengsl lífeyris og launa, en þá var ákveðið með lögum sem tóku gildi í byrjun árs 1998 að bætur almannatrygginga ættu að breytast í samræmi við þróun launa en hækka þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Á þessu tímabili hafa lífeyrisgreiðslurnar undantekningarlaust verið miðaðar við það sem lægst hefur gefið lífeyrisþegum, þ.e. vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu. Þannig hafa lífeyrisgreiðslur einungis hækkað um 11% á þessu tímabili en launavísitalan hefur hækkað mun meira eða um 17%. Ég veit það því að ég hef kynnt mér nefndarálit þingmanna sem fjölluðu um þetta mál 1998 að þeir stóðu í þeirri trú að það ætti frá 1998 að miða kjör lífeyrisþega við launavísitöluna sem hefur hækkað á þessu tímabili um 17% en lífeyrisgreiðslurnar hafa einungis hækkað um 11%. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um skilning hennar á þeirri lagabreytingu sem gerð var 1998 því að af orðum hæstv. forsrh. mátti líka skilja að miða ætti við launavísitölu sem hefði, ef eftir henni hefði verið farið, gefið lífeyrisþegum miklu meira en þeir hafa borið úr býtum á sl. 2--3 árum. Kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hefur vegna þessa hækkað mun minna en kaupmáttur almennra launa en á þessu tímabili, þ.e. janúar 1998 til september 2000 hefur kaupmáttur almennra launa hækkað um 8,7% en kaupmáttur grunnlífeyris og tekjutryggingar hefur einungis hækkað um 2% eða fjórum sinnum minna en hjá launafólki á þessu tímabili. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað þetta vegna þess að ég tel að nóg hafi verið gengið á hlut lífeyrisþeganna frá árinu 1995 þó að stjórnvöld reyndu að fylgja þeirri lagasetningu sem gerð var 1998 sem ég veit að lífeyrisþegar bundu miklar vonir við og treystu á að nú yrði eftirleiðis miðað við launavísitölu. Ég spyr því ráðherrann: Hefur hún þann skilning á þessari lagabreytingu að miða hafi átt við launavísitölu?

Herra forseti. Sú tillaga sem ég mæli fyrir tekur fyrst og fremst mið af því að koma á sérstakri afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega. Einnig vantar að farið sé út í heildarstefnumótun almennt í málefnum þessara hópa því að auk tryggingagreiðslna og að bæta framfærslukjör þessara hópa þarf líka að skoða húsnæðis- og atvinnumál aldraðra og skoða þarf markvissa stefnumótun í uppbyggingu á dvalar- og hjúkrunarheimilum fyrir aldraða en þar eru langir biðlistar t.d. eftir hjúkrunarheimilum. En samkvæmt tillögu þessari má ætla að þegar hún kemst til framkvæmda, kosti a.m.k. 3--5 milljarða að gera sérstakt átak í málefnum þessara hópa og ungra öryrkja og til álita kemur að skipta þessum útgjöldum niður en ég held að til þess að mæta því tapi sem þessir hópar hafa orðið fyrir á umliðnum árum af því að þeir hafa ekki fengið það sama og aðrir, þá þurfi a.m.k. að bæta lífeyrisgreiðslur til þeirra hópa um 3--5 milljarða kr.

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég á ólokið í framsögu minni en ég bíð með þau þar til ég kemst aftur að síðar í umræðunni en vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég hef beint til hennar. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. heilbr.- og trn.