Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:19:16 (5451)

2001-03-08 16:19:16# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í umræðunni um velferðarkerfið hefur margoft komið fram að það er mikill vandi hvað launin hafa hækkað mikið hér á landi af því að það er viðmiðunin. Ef launin eða lífeyririnn hefði ekki hækkað, um 25%, þá værum við ekkert komin umfram skattleysismörk. Það er nefnilega vandinn. Launin og lífeyririnn hafa hreinlega hækkað of mikið miðað við verðlag. Það er kannski heilmikið vandamál. Menn hafa rætt það að það sé mikill vandi hvað barnalífeyririnn, sem er mjög mikið tekjutengdur að kröfu Alþfl. á sínum tíma, hefur lækkað mikið í heildina. Það er vegna þess að sífellt fleiri foreldrar hafa of háar tekjur til að njóta barnalífeyris. Það er víst mikið vandamál hvað tekjurnar hafa hækkað mikið. Allt þetta góðæri stafar af því að menn lækkuðu skatta á launþega og fyrirtæki, aðallega á fyrirtæki, það var reyndar ekki á launþega, það var hækkaður skatturinn á launþega til að byrja með. (Gripið fram í.) Á þeim tíma borguðu lífeyrisþegar ekki skatta, þeir voru með það lágar tekjur (Gripið fram í.) þannig að tekjur lífeyrisþega hafa stórhækkað og þess vegna eru þeir farnir að borga skatta. Auðvitað má huga að því hvort það þurfi að hækka skattleysismörk eða jafnvel lækka skattprósentur til þess að örva atvinnulífið aftur. Ég geri ráð fyrir því að ef það skyldi koma einhver kreppa, sem við skulum að sjálfsögðu vona að verði ekki og ég býst ekkert við, yrðu menn að skoða það að lækka skatta til þess að örva atvinnulífið og einstaklinga til þess að vinna enn frekar og búa til nýtt góðæri.