Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:32:59 (5454)

2001-03-08 16:32:59# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem upp til þess að lýsa stuðningi mínum og flokks míns við þá þáltill. sem við ræðum um afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega. Ég tel að hér sé um afar nauðsynlegt mál að ræða og þarft fyrir okkur yfirleitt til þess að skipa þessu þjóðfélagi á betri veg en verið hefur. Á undanförnum mánuðum og árum hafa verið miklar deilur um afkomu öryrkja og aldraðra og ýmissa hópa sem af einhverjum ástæðum hafa ekki unnið sér inn eðlilegan rétt til lífeyris eða trygginga. Ég tel að með því markmiði sem að er stefnt með þessari þáltill., að teknar verði upp viðræður milli stjórnvalda og samtaka lífeyrisþega um nýjan samning um afkomutryggingu, sem komi til framkvæmda um næstu áramót og verði síðan undirstaða nýrra laga um almannatryggingar, ég tel að með því sé mörkuð afar jákvæð stefna fyrir framtíðina. Það er hægt að benda á að við höfum öll í stjórnarandstöðunni flutt ýmsar tillögur í þá veru að styðja við og bæta hag öryrkja og aldraðra og annarra sem af einhverjum orsökum standa höllum fæti tekjulega. Þess vegna tel ég að það mál sem hér er flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar sé afar þarft og þá stefnumótun sem þar er lögð til styðjum við í Frjálslynda flokknum heils hugar.