Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:45:42 (5460)

2001-03-08 16:45:42# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki einni spurningu sem ég beindi til hennar, sem mjög brennur á mér og reyndar elli- og örorkulífeyrisþegunum líka vegna þess að margir hafa lagst yfir það hvort ríkisstjórnin hafi staðið við framkvæmd á lögunum frá 1998, þegar ákveðið var að taka upp ákveðna viðmiðun að því er varðar greiðslur lífeyrisþega. Þetta tók gildi í byrjun árs 1998 og þá áttu bætur almannatrygginga að breytast í samræmi við þróun launa. En á þessu tímabili, eins og ég og fleiri hafa skoðað það, hefur nærri undantekningarlaust verið miðað við það sem lægst hefur gefið lífeyrisþegunum, þ.e. vísitölu neysluverðs. Þetta hefur þýtt það að lífeyrisgreiðslurnar hafa einungis hækkað um 11% á meðan launavísitalan hefur hækkað um 17% á þessu tveggja eða þriggja ára tímabili. Þetta þýðir líka það að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna er fjórum sinnum minni en hjá launþegum á almennum markaði. Þingmenn stóðu í þeirri trú þegar þessi lög voru samþykkt, að það ætti að miða við launavísitölu.

Í nál. minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, er vitnað til orða forsrh. sem mælti fyrir þessu frv. í bandormi, þar sem forsrh. sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þannig er lagt til að ákvörðun bótanna taki mið af almennri þróun launa á fjárlagaárinu og leggi þá sömu forsendur og fjárlagafrv. því til grundvallar en jafnframt er lagt til að bótaþegum verði veitt trygging fyrir því að fjárhæð þeirra geti aldrei farið niður fyrir það mark sem vísitala neysluverðs segir til um ...``

Ég held því fram að það hafi alltaf verið tekið mið af þessu gólfi, þ.e. neysluverðinu, en ekki þróun launa, með þeim afleiðingum sem ég hef lýst.

Ég vil því spyrja um skilning hæstv. ráðherra á þessu sem hlýtur að hafa fylgst með þessu: Telur ráðherrann að að fullu hafi verið staðið við framkvæmd laganna frá árinu 1998 að því er varðar tengingu lífeyrisgreiðslna við launaþróun?