Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:49:02 (5462)

2001-03-08 16:49:02# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög brýnt að reyna að leiða hið sanna í ljós í þessu máli, vegna þess að því er mjög oft haldið fram að ríkisstjórnin hafi verið að brjóta lög á öryrkjum og öldruðum og að ekki sé staðið við framkvæmdina á lögunum frá 1998. Og við höfum stundum tekist á um það hér í þessum ræðustól. Ég hef látið reikna þetta út og eftir því sem ég sannast veit, ég veit t.d. að Samtök aldraðra eru mér sammála um þá útreikninga sem ég hef hér verið að kynna, að kaupmáttur launanna hefur orðið fjórum sinnum meiri á þessu tímabili heldur en lífeyrisgreiðslna. Þess vegna fagna ég því að ráðherrann ætli að fara ofan í þetta mál og skoða hið rétta í þessu. Ég bíð þá bara eftir að heyra það þannig að við getum rætt þetta, vegna þess að ég veit að hæstv. ráðherra hlýtur að vera áfram um að það sé að fullu staðið við framkvæmd þeirra laga sem voru samþykkt á Alþingi 1998.