Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 18:05:52 (5470)

2001-03-08 18:05:52# 126. lþ. 85.14 fundur 266. mál: #A rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[18:05]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um rásir fyrir búfé til að koma í veg fyrir slys, sem hv. flm. Þuríður Backman hefur gert grein fyrir, er afar mikilvægt mál. Brýn nauðsyn er að tryggja aukið öryggi á þjóðvegum landsins. Nauðsynlegt er að geta haldið búfé frá vegum. Það er líka nauðsynlegt að geta haldið umferð ríðandi fólks frá þjóðvegum. Til þess að svo megi verða þarf að sjálfsögu að girða vegina af, girða þá og afmarka frá umhverfinu. En vegir liggja í gegnum lönd. Þeir liggja í gegnum tún. Þeir liggja í gegnum beitilönd, úthaga og hálendi og skepnur eru þar eðlilega á beit. Til að hægt sé bæði að nýta þessi lönd og hafa um þau eðlilega umgengni, er einmitt nauðsynlegt, ekki aðeins að þau séu girt vel af, heldur líka að hægt sé að komast greiðlega um svæðið. Sú tillaga sem hér er flutt er einmitt um að það sé skipulega gert ráð fyrir göngum undir þjóðvegina þannig að þar geti farið fram umferð án þess að trufla og skapa óöryggi á þjóðvegunum.

Það er afar mikilvægt þegar settar eru fram körfur um girðingar meðfram vegum að jafnframt sé tekið tillit til þess hvað sé í rauninni raunhæft að gera og hvað verði að gera. Það verður að tryggja eðlilega umferð um landið og það er einmitt lagt til með þeirri tillögu sem hér er flutt. Því er mikilvægt, herra forseti, að við alla nýlagningu vega verði tekið fullt tillit til nauðsynlegs öryggis og umferðar í upphafi og þar á meðal rásum til að búfé og fólk geti gengið þvert á þjóðvegina án þess að valda þar hættu. Einnig ber að skoða brýnustu staði á núverandi þjóðvegum þar sem ráðstafanir eins og hér eru lagðar til með því að gera göng undir þjóðvegina gætu bætt verulega um í öryggismálum.

Herra forseti. Ég tel þá till. til þál. sem hv. þm Þuríður Backman flytur afar gott og merkilegt og sterkt innlegg inn í umræðuna um aukið öryggi á þjóðvegum landsins. Ég hvet til þess að það sem hér er lagt til verði tekið til gaumæfilegrar athugunar og verði liður í því að tryggja öryggi á þjóðvegum landsins í framtíðinni.