Viðskiptahallinn

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:10:17 (5481)

2001-03-12 15:10:17# 126. lþ. 86.1 fundur 358#B viðskiptahallinn# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta var ákaflega mikilvæg yfirlýsing sem hér var gefin af hæstv. fjmrh. Í fyrsta skipti gerist það að einn af fulltrúum ríkisstjórnarinnar viðurkennir að viðskiptahallinn sé verulegt vandamál og hamli því að hægt sé að lækka vexti. Hæstv. fjmrh. viðurkennir líka að þessar nýju tölur hjálpi ekki upp á sakirnar.

Staðan er einfaldlega þannig, herra forseti, að ríkisstjórninni hefur mistekist við stjórn efnahagsmála. Henni hefur mistekist að ráða bót á viðskiptahallanum og vegna viðskiptahallans eru vextirnir svona háir. Hverjir borga herkostnaðinn af mistökum ríkisstjórnarinnar? Það eru fyrirtæki og heimili í landinu.