Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:17:11 (5486)

2001-03-12 15:17:11# 126. lþ. 86.1 fundur 359#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Auðvitað er rétt hjá hv. þm. að stjórnvöld bera ábyrgð á því að sem bestur friður sé á vinnumarkaðnum og möguleikar séu til að leysa deilur sem þar koma upp og ekki síst í þessari atvinnugrein sem skiptir okkur svo miklu máli.

En það hefur sýnt sig að þær tilraunir sem gerðar hafa verið á hv. Alþingi til að leysa málið hafa ekki dugað og því hefur málið hvað eftir annað aftur verið í fangi þeirra eiginlegu aðila sem um þetta véla og það eru launþegar og atvinnurekendur. Engar ásakanir hafa komið frá mér um einhverja sérstaka verkfallsgleði sjómanna og því sé ég ekki ástæðu til að svara þeim orðum hv. þm. sérstaklega. En ég verð að ítreka það að í þessu deilumáli sem öðrum deilumálum á vinnumarkaði eru það fyrst og fremst þeir sem deila, launþegar og vinnuveitur, sem bera ábyrgð á því að leysa málið.