Skimun vegna HIV-veiru á Vogi

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:25:52 (5493)

2001-03-12 15:25:52# 126. lþ. 86.1 fundur 361#B skimun vegna HIV-veiru á Vogi# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hver stofnun fyrir sig forgangsraðar því sem hún telur mikilvægast hverju sinni. Ef við tölum um Vog í þessu sambandi eða SÁÁ, þá hafa fjármunir sem þangað hafa runnið undanfarin aukist verulega, t.d. síðustu fjögur ár. Framlög samkvæmt ríkisreikningi eru þannig að árið 1997 voru þetta 299 millj., 1998 268 millj., 1999 284 millj. og árið 2000 342 millj.

Mér finnst rétt að fram komi hvaða fjármuni er um að ræða en það sem ég tel að skipti mestu máli og skiptir máli fyrir Vog sem rekur mjög myndarlega starfsemi og hefur þjónað okkur mjög vel er að við gerum þjónustusamning og það sé algerlega ákveðið í þeim þjónustusamningi hvað ríkið er að kaupa af viðkomandi stofnun og hvaða þjónustu stofnunin veitir okkur.

Í undirbúningi í ráðuneytinu er einmitt að gera slíkan þjónustusamning og menn eru farnir að ræða um það. Það alveg ljóst að landlæknir kemur inn í það mál og þá gerir hann þær kröfur sem hann telur rétt að gera, bæði hvað þetta varðar og ýmislegt annað. Þetta höfum við gert varðandi margar stofnanir og reynst okkur vel.