Uppeldissvæði rjúpunnar og skógrækt

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:29:36 (5496)

2001-03-12 15:29:36# 126. lþ. 86.1 fundur 362#B uppeldissvæði rjúpunnar og skógrækt# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í vetur lagði hv. varaþm. Árni Gunnarsson fram fyrirspurn til umhvrh. um íslenska rjúpnastofninn. Í skriflegu svari umhvrh. kemur m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stofnsveiflur rjúpunnar eru náttúrulegt fyrirbæri. Ofveiði mundi væntanlega jafna sveiflurnar út. Stjórnvöld hafa um tvær meginleiðir að velja til að stuðla að vernd og viðgangi rjúpnastofnsins. Í fyrsta lagi að tryggja framtíð mikilvægustu uppeldissvæða rjúpunnar, t.d. að þau verði ekki eyðilögð með skógrækt ...`` Takið eftir orðalaginu: ,,ekki eyðilögð með skógrækt`` --- ,,og í öðru lagi að banna skotveiði ef um ofveiði er að ræða, líkt og gert var í nágrenni Reykjavíkur 1999.``

Mér finnst hér um afar sérkennilegt orðalag að ræða þar sem talað er um að eyðileggja uppeldissvæði rjúpunnar með skógrækt þegar til þess er litið hve lítil skógrækt er í þessu landi, langt undir 1% af heildarundirlendi landsins. Mér finnst eins og ákveðnir náttúrufræðingar hafi þörf fyrir að koma óorði á skógrækt í landinu. Sjálfur geng ég talsvert mikið um skógarlendi þar sem eru skjólbelti og skógur og þar verð ég mjög oft var við rjúpur. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. umhvrh. hvort hún sé sammála því orðalagi sem hún kynnir í svari sínu við þessari fyrirspurn.