Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:43:02 (5500)

2001-03-12 15:43:02# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar. Eins og hv. þm. er í fersku minni var Alþingi kallað saman í janúar til að fjalla um frv. til breytinga á lögum um almannatryggingar sem lagt var fram til þess að fullnægja dómi Hæstaréttar í svokölluðu öryrkjamáli. Það frv. varð að lögum 24. janúar sl. og tryggir að öryrki sem er í sambúð eða hjúskap fær allt að 25 þús. kr. tekjutryggingu til viðbótar við lífeyri sinn óháð tekjum maka sem þýðir að bætur lífeyrisþega í hjúskap sem áður gátu farið niður í 18 þús. kr. á mánuði vegna tekna maka verða nú aldrei lægri en 43 þús. kr. á mánuði.

Lágmarkið fer úr 18 þús. kr. í 43 þús. kr. á mánuði fyrir þessa einstaklinga. Það kom skýrt fram í umræðum um það mál að ríkisstjórnin teldi sér á sínum tíma skylt að bregðast hratt við dómi Hæstaréttar. Sá dómur fjallaði eingöngu um öryrkja en ekki aðra hópa eins og vikið er að í forsendum dómsins og því fjallaði frv. það sem varð að lögum, nr. 3/2001, eingöngu um öryrkja. Forustumenn Samtaka eldri borgara lýstu því þá yfir að þeir teldu sömu efnislegu rökin eiga við um sína félagsmenn, svo sem í því tilviki þegar öryrki verður ellilífeyrisþegi við 67 ára aldur. Á fundi í samráðsnefnd samtaka eldri borgara og ríkisstjórnarinnar sem haldinn var 1. mars lögðu forustumenn eldri borgara mikla áherslu á að félagsmenn þeirra yrðu að njóta sömu réttinda að þessu leyti og öryrkjar og þetta mál væri afar brýnt. Í framhaldi af því og í samráði við nefnd sem nú vinnur að endurskoðun lífeyristrygginga ákvað ríkisstjórnin að verða við þessum óskum eldri borgara og hefur því látið semja það frv. sem hér liggur fyrir.

[15:45]

Ástæðan fyrir því að þetta mál er tekið sérstaklega er einfaldlega sú að um það var samkomulag í ríkisstjórninni að taka þessa pólitísku ákvörðun og koma þannig til móts við óskir ellilífeyrisþega í þeim tilvikum sem aðstæður þeirra og öryrkja eru sambærilegar.

Í frv. er gert ráð fyrir sérreglu í 17. gr. laga um almannatryggingar sem er ætlað að tryggja að ellilífeyrisþegi hafi sjálfur ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka. Í reglunni felst að samanlögð eign, tekjuöflun ellilífeyrisþega og tekjutrygging hans geta aldrei, þrátt fyrir sameiginlegt frítekjumark hjóna, numið lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári, eða 25.000 kr. á mánuði. Af þessu leiðir að enginn ellilífeyrisþegi fær vegna tekna maka lægri lífeyri en sem nemur 43.424 kr. á mánuði þegar lágmark tekjutryggingar að viðbættum eigin tekjum hefur verið lagt við grunnlífeyri.

Gert er ráð fyrir að 2/3 hlutar tekna lífeyrisþegans hafi áhrif á fjárhæð sérreglunnar. Þannig verður þetta til þess að auka tekjur ellilífeyrisþega sem er með allt að 450.000 kr. í árstekjur í tilvikum þar sem tekjutrygging hans er skert samkvæmt gildandi reglum vegna tekna maka hans.

Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. apríl 2001.

Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um greiðslur fyrir tímabilið 1. janúar 2001 til 31. mars 2001, greiðslur vaxta og framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins.

Ákvæði til bráðabirgða I í frv. gerir ráð fyrir að greiða skuli ellilífeyrisþegum tekjutryggingu samkvæmt sérreglu 1. gr. frv. fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2001. Frá tekjutryggingu reiknaðri með þessum hætti skulu dragast þær greiðslur tekjutryggingar sem viðkomandi ellilífeyrisþegi hefur þegar fengið. Einnig skal greiða 5,5% ársvexti frá þeim degi sem lífeyrisþeginn gat fyrst átt rétt á að fá greiðslu samkvæmt lögum um almannatryggingar. Vextir skulu greiðast þó að ekki hafi legið fyrir umsókn um tekjutryggingu frá viðkomandi lífeyrisþega.

Ákvæði til bráðabirgða II í frv. leggur þá skyldu Tryggingastofnun ríkisins að hún hafi frumkvæði að greiðslum aftur í tímann í þeim tilvikum þar sem hún hefur í höndum umsóknir frá lífeyrisþegum og upplýsingar sem duga til að reikna út fjárhæðirnar sem greiða skal. Einnig er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins beini áskorun til lífeyrisþega um að senda inn upplýsingar ef umsóknir liggi fyrir en upplýsingar eru ekki nægjanlegar. Miðað er við að allar greiðslur sem stofnunin getur sjálf reiknað án atbeina lífeyrisþega verði fyrir 1. maí 2001.

Áætlað er að kostnaður við frv. verði um 140 millj. kr. árlega. Er sú áætlun samkvæmt útreikningi sem Þjóðhagsstofnun hefur gert en stofnunin áætlar að ákvæðið nái til um 1.100--1.200 ellilífeyrisþega en því til viðbótar er einhver fjöldi ellilífeyrisþega sem nýtur ekki tekjutryggingar í dag sem gæti átt rétt á greiðslum samkvæmt frv. Má því ætla að um geti verið að ræða um 1.500 manna hóp.

Virðulegi forseti. Umræðan sem spunnist hefur um þá breytingu á almannatryggingalögum sem gerð var í janúar snerist öðrum þræði um rétt einstaklingsins til framlags úr sameiginlegum sjóði þegar þeir búa við ákveðnar aðstæður. Mér finnst að í þessum efnum verði menn að hugsa vel sinn gang. Staðreyndin er sú að við getum ekki tryggt öllum borgurum landsins sama rétt til greiðslna úr sameiginlegum sjóðum, burt séð frá því hvort þeir þurfa á greiðslunum að halda eður ei. Velferðarkerfið var fyrst og fremst byggt upp til að liðsinna þeim sem mest þurfa á því að halda og þeim grundvelli verðum við að halda til haga.

Í þrjá áratugi hafa allar ríkisstjórnir talið nokkur rök fyrir því að skerða t.d. tekjutrygginguna, ekki bara vegna eigin tekna heldur líka vegna tekna maka. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að við höfum dregið úr slíkum skerðingum og eins og ég hef áður sagt er það þessi ríkisstjórn sem hefur gengið lengst í þessum efnum. Þetta breytir hins vegar ekki þeim grundvelli sem við byggjum almannatryggingar á að koma þeim mest til aðstoðar sem eru í mestri þörf fyrir aðstoð samfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér því að óska eftir að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.