Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:50:44 (5501)

2001-03-12 15:50:44# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, BH
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem er hér til umræðu er afleiðing af dómi Hæstaréttar frá því í desember sl. sem líklega ekki nokkur maður í þessu samfélagi hefur farið varhluta af og allri þeirri umræðu sem spannst í kjölfar þess dóms. Hæstv. heilbrrh. hefur lýst því nokkuð vel um hvað frv. snýst. Frv. snýst um að ellilífeyrisþegar fá það sama og örorkulífeyrisþegar fengu með lögunum umdeildu frá í janúar fram í tímann en þeir fá ekki jafnmikið greitt aftur í tímann og öryrkjar fengu samkvæmt þeim lögum. Og, herra forseti, ég hef ekki enn fengið viðhlítandi skýringu á því.

Ellilífeyrisþegar fá aðeins greitt aftur til 1. jan. 2001 á meðan öryrkjar fengu leiðréttingu fjögur ár aftur í tímann. Þess vegna er ekki með þessu frv. verið að uppfylla kröfur um að jafnræði ríki á milli lífeyrisþega í þessum efnum, eins og krafa hefur verið sett fram af hálfu ellilífeyrisþega. Með þessu frv. eru ellilífeyrisþegar að fá lítinn áfanga í átt til leiðréttingar á þeirri skerðingu sem þeir hafa búið við, hvort sem miðað er við túlkun ríkisstjórnarinnar á málinu eða stjórnarandstöðunnar, sem ég vil rifja upp að var gerólík þeirri túlkun sem ríkisstjórnin byggði á, en túlkun stjórnarandstöðunnar gerði m.a. ráð fyrir því að ekki væri eðlilegt að beita fyrningarákvæðum laga þegar mannréttindi hafa sannanlega verið brotin á fólki.

Ljóst er burt séð frá þessu frv. að lagaleg staða ellilífeyrisþega er að sjálfsögðu sú að einstaklingar í hópi þeirra geta krafist fullrar leiðréttingar á kjörum sínum aftur í tímann fyrir dómstólum, þrátt fyrir þetta frv. sem liggur fyrir og þrátt fyrir að það yrði gert að lögum. En tíminn vinnur að sjálfsögðu gegn þeim í málinu því nú þegar er nokkuð liðið á fyrningartímann sem ríkisstjórnin beitti örorkulífeyrisþegana, þ.e. 1. janúar 1997 til janúar 2001 þannig að ef fullri fyrningu yrði beitt í slíku máli er ljóst að janúar, febrúar og mars eru fyrndir, en ef miðað er við að málshöfðun slíti fyrningu í málinu, þá hefur hún enn ekki átt sér stað að því er ég best veit og því skiptir tíminn miklu máli í þessu efni.

En það er ljóst, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur ekki séð fyrir endann á þessu máli með frv. sem hér hefur verið lagt fram. Þvert á móti er það enn frekari ávísun á málaferli lífeyrisþega gegn ríkisvaldinu. Það er sorgleg staðreynd, herra forseti, að það skuli vera eina leiðin fyrir þennan hóp öryrkja og ellilífeyrisþega til að fá rétti sínum framgengt gagnvart því ríkisvaldi sem er nú við völd að höfða tímafrek og fjárfrek dómsmál.

Ríkisstjórnin hafnar öðrum leiðum, herra forseti, hún hafnar samvinnu og sanngjörnum kröfum þeirra um fulla leiðréttingu samkvæmt dómi Hæstaréttar og vil ég þar vísa sérstaklega til ályktunar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni frá 25. janúar 2001.

Því er reyndar líka lýst í athugasemdum með frv. sjálfu að fulltrúar Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík hafi lýst þeim sjónarmiðum sínum á fundum með samráðsnefnd félaganna og ríkisstjórnarinnar að þeir telja eðlilegt að sama efnisregla gildi um ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Þessi ályktun minnir á dóm Hæstaréttar frá 19. desember árið 2000 þar sem dæmt var að öryrkjar eigi rétt til einstaklingsbundinnar lágmarksframfærslu, sbr. 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar, og í dómnum felst í reynd viðurkenning á sjálfstæðum rétti einstaklinganna til grundvallarmannréttinda. Í þessu tilviki réttur til framlaga sem tryggi einstaklingsbundna lágmarksframfærslu enda þótt viðkomandi sé í hjúskap.

Því er borið við í frv. ríkisstjórnarinnar, vísað er til nefndarinnar margfrægu sem ríkisstjórnin skipaði til að semja þetta frv. eða hvernig bregðast skyldi við dómnum þar sem segir að dómurinn hafi ekki fordæmisgildi fyrir ellilífeyrisþega. Það var reyndar án mjög ítarlegs rökstuðnings en vitnað í tiltekin orð í dómnum sjálfum og ríkisstjórnin heldur síðan núna áfram með að vísa til þessara orða í frv. sem hér er lagt fram og segir sem svo að hún ætli hins vegar, þrátt fyrir að hún telji þennan dóm ekki hafa fordæmisgildi fyrir ellilífeyrisþega, eigi að síður að greiða þeim út hvað varðar tímann fram á við, en væntanlega með sömu rökum telji sér ekki skylt að þurfa að greiða þeim aftur í tímann. Þessum skilningi mótmæli ég, herra forseti.

Ég held að sé rétt í þessu samhengi að rifja örlítið upp afstöðu stjórnarandstöðunnar til öryrkjamálsins. Stjórnarandstaðan var öll sammála því í öryrkjamálinu að með lögum ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið komið til móts nema að hluta við dóm Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins.

Í fyrsta lagi er það skoðun okkar að dómur Hæstaréttar hafi falið í sér að lagt verði bann við því að tengja tekjutryggingu við tekjur maka og þar sem því væri haldið áfram væri enn verið að brjóta rétt á þessum hópi. Því vantar nokkuð upp á að þessi hópur hafi fengið að fullu bætta þá skerðingu sem hann varð fyrir. Ég vil segja að bréfaskiptin frægu á milli forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar hafa ekki breytt neinu um þessa niðurstöðu okkar enda afskaplega vafasamt fordæmi sem þar var bryddað upp á af hálfu forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar sem gerist vonandi aldrei aftur.

Við vöktum athygli á því að verið væri að beita þennan hóp brattari skerðingum en áður gagnvart eigin tekjum einstaklingsins og að sá hópur sem það bitnar verst á eru konur. Hið sama á svo sannarlega við í þessu máli, herra forseti. Þótt ég hafi ekki hér á takteinum tölur um það hve stór hluti þessa hóps séu konur þá er það einu sinni svo að í hópi eldri borgara eru konur mun fleiri, enda langlífari en karlarnir, þannig að enn erum við fyrst og fremst að tala um konur.

Í öðru lagi, herra forseti, er það skoðum okkar að það sé fullkomlega óeðlilegt og siðlaust athæfi af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja til að beitt verði fyrningarreglum laga á hóp manna sem Hæstiréttur hefur dæmt ríkisvaldið fyrir að brjóta mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar á. En þetta gerði ríkisstjórnin í öryrkjamálinu og í þessu máli er í raun og veru gengið enn lengra því að leiðréttingin er einungis látin ná aftur til 1. janúar á þessu ári.

Við skulum vera minnug þess, herra forseti, að orsökin fyrir því að ríkisstjórnin situr nú í þessari súpu hvað lífeyrisþega varðar, er að Hæstiréttur dæmdi í máli sínu í desember sl. að stjórnarskrárákvæði hafi verið brotin á tilteknum hópi manna. Ríkisstjórnin hefur beitt tiltekinn hóp manna órétti og nú hefur annar hópur í sambærilegri stöðu og sá sem dómsmálið höfðaði krafist þess að hann njóti sömu kjara. Það er ekki óeðlileg krafa í ljósi þess að kjör þessara hópa hafa verið skoðuð í samræmi í gegnum tíðina og skerðingarheimildin hefur verið byggð á sömu reglugerðinni.

Herra forseti. Það er því skoðun okkar að lending ríkisstjórnarinnar í því máli hafi verið ófullkomin. Ég lýsi allri ábyrgð á þessu máli líka sem og því máli á hendur ríkisstjórninni og tel að ekki sé komið nægilega til móts við sanngjarna kröfu þessa hóps.

En með þessu frv. er eins og áður sagði verið að færa ellilífeyrisþegum sama rétt og öryrkjum fram í tímann. Hins vegar eru engin rök fyrir því, herra forseti, að láta þá ekki fá þennan rétt jafnlangt aftur í tímann og ég verð að óska eftir því hér, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. útskýri það fyrir þingheimi hver séu rökin fyrir því að ekki er farin sú leið úr því að á annað borð er verið að viðurkenna að ellilífeyrisþegar kunni að eiga rétt byggðan á þessum dómi. Hvers vegna í ósköpunum eiga þeir þá ekki sama rétt aftur í tímann og öryrkjar?

Herra forseti. Mér nægir ekki að vísa til þess að ríkisstjórnin túlki það svo að í raun og veru eigi dómurinn ekki beint við um ellilífeyrisþega. Það breytir ekki því í mínum huga að um leið og hæstv. ríkisstjórn viðurkennir að ellilífeyrisþegar geti byggt rétt á grundvelli þessa dóms hljóti það sama að gilda aftur í tímann. Ég vil a.m.k., herra forseti, fá skýringar á því af hverju svo er ekki gert aðrar en þær sem liggja kannski beint við að þetta kosti of mikla peninga til að menn telji sig hafa efni á því að greiða þessa peninga til baka.

[16:00]

Ég vil einnig minnast á að það hefur ekki verið gert samkomulag við forustufélags eldri borgara um að gera þetta svona, enda væri slíkt samkomulag, að mínum dómi, ekki lagalega bindandi fyrir einstaklinga sem kynnu að krefjast réttar síns fyrir dómi. Eftir mínum upplýsingum hefur ekki verið gert samkomulag um að þetta mál skuli afgreitt eins og hér hefur verið gert, enda teldi ég að slíkum félagsskap væri ekki heimilt að semja fyrir hönd hóps um skerðingu á lögmætum rétti þeirra. Eftir stendur alltaf rétturinn til að höfða mál á einstaklingsgrunni fyrir dómi.

Þetta frv. færir eldri borgurum þó einhverjar úrbætur og því munum við í Samfylkingunni a.m.k. ekki standa í vegi fyrir því að það fái afgreiðslu í þinginu. Við ítrekum þó að við teljum þetta ekki nægilegt og erum ekki sátt við meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu máli frekar en þeim málum sem hér hafa verið til meðferðar um kjör öryrkja fyrr á árinu. Þetta mál fer síðan til hv. heilbrn. og að venju, herra forseti, fá stór og mikil mál eins og þetta skjóta afgreiðslu. Þar munum við skoða málið ofan í kjölinn og væntanlega fá umsagnir um frv.

Hins vegar verð ég, herra forseti, að taka fram að það er óþolandi hversu mikið þarf að hraða prinsippmálum gegnum þingið. Við erum iðulega sett í þá aðstöðu að mál koma inn frá ríkisstjórninni á síðustu stundu og í raun er þinginu stillt upp við vegg. Málin eru meira og minna afgreidd í gegnum þingið með einhvers konar afbrigðum og það er ekki líðandi, herra forseti. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstjórnar að hún geri ráð fyrir eðlilegum meðferðartíma á málum hér í þinginu.

Reyndar er það einnig mjög undarlegt að ekki skuli hafa gefist tími til þess af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að koma með þessa tillögu fyrr. Það er ekki eins og málið hafi átt að koma mjög mikið á óvart. Það er þó nokkuð síðan við ræddum um öryrkjamálið og menn hljóta að hafa gert sér grein fyrir því að líklegt væri að skoða þyrfti, það lá reyndar beint við í kjölfar umræðunnar, rétt annarra hópa. Þetta mál er rökrétt framhald og bein afleiðing af því máli, herra forseti.

Ég vil fyrir mína hönd lýsa yfir óánægju með þetta og ég mótmæli þessum vinnubrögðum, að þau skuli vera að koma fyrir aftur og aftur í þinginu. Þar með er ég ekki að lýsa því yfir að af okkar hálfu standi til að tefja þetta mál. Það felur þó í sér einhverjar úrbætur fyrir ellilífeyrisþega.

Ég vil líka nota tækifærið, herra forseti, og spyrja hæstv. ráðherra um hvenær standi til að nefndin um endurskoðun almannatryggingalaganna skili af sér. Við þessa umræðu sem og í umræðum um öryrkjamálið hefur mikið verið vísað til starfa þeirrar nefndar þegar málefni lífeyrisþega ber á góma. Menn hafa gert sér miklar vonir um að þar verði verulega bætt úr bágri stöðu þeirra og þeir hafa ástæðu til þess að halda að sú nefnd muni stuðla að verulegum kjarabótum fyrir lífeyrisþega. Í málflutningi eldri borgara í tengslum við þetta mál í fréttum fjölmiðla kom m.a. fram að þeir byndu miklar vonir við að umfjöllun um málið mundi skila lífeyrisþegum verulegum kjarabótum. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrrh. hvenær von sé á því að sú nefnd skili af sér og hvort það liggi á þessu stigi fyrir hversu vel ríkisstjórnin ætli að taka á þeim málum. Við skulum hins vegar líka vera minnug þess að í tengslum við öryrkjaumræðuna reis hér upp hver hv. þm. á fætur öðrum og lýsti yfir áhyggjum sínum af bágri stöðu lífeyrisþega, þá sértsaklega öryrkja. Þeir sögðu að úr því þyrfti að bæta og vísuðu til þessarar ágætu nefndar sem nú situr að störfum.

Herra forseti. Það er kominn tími til að skerðingunni sem ríkisstjórnin hefur látið dynja á þessum hópi verði skilað aftur. Þetta mál er einungis lítill áfangi í þá veru. Meira þarf að koma til eigi að koma að fullu til móts við sanngjarnar kröfur þessa hóps um réttarbætur.

Í tengslum við öryrkjamálið var rifjað upp að kjör þessara hópa hafa rýrnað mjög miðað við aðra viðmiðunarhópa og þá sérstaklega ef við miðum við meðallaun verkamanna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var rakið í umræðunni um öryrkjamálið. Úrbætur kosta peninga, herra forseti, því þessir peningar hafa verið teknir af þessum hópi og við skulum ekki gleyma því.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hlakka til að sjá þær tillögur sem koma frá þeirri ágætu nefnd sem á að fjalla um endurskoðun almannatryggingalaganna. Ég óska jafnframt eftir því að hæstv. heilbrrh. svari hvenær þess sé að vænta að þessi nefnd skili niðurstöðu sinni.