Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:07:31 (5503)

2001-03-12 16:07:31# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki svo að Samfylkingin hafi komið af stað þeirri úlfúð sem ríkir um málefni lífeyrisþega í þessu samfélagi. Það er þvert á móti þannig að Samfylkingin og aðrir flokkar í stjórnarandstöðu lýstu yfir andstöðu við að farið yrði með málefni lífeyrisþega eins og gert var með lögunum frá 1998. Þannig eru það ekki við sem komum úlfúðinni af stað, herra forseti, heldur þvert á móti ríkisstjórnarflokkarnir.

Sátt svo langt sem það nær, herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að eldri borgarar vilji gjarnan að málið sem hér liggur fyrir fái afgreiðslu vegna þess að það felur í sér leiðréttingu á kjörum þeirra. Hins vegar er það ekki svo, herra forseti, að þar með séu þeir sáttir eða að komið hafi verið til móts við kröfur þeirra að fullu. Það er ekki sú skýring sem þeir gefa mér og ekki sú skýring sem ég hef séð af fréttalestri. Ég hef þó lesið og er með útskrift af fréttum í málinu. Ég undrast, herra forseti, ef Félagar eldri borgara telur sig geta samið á þennan hátt um málefni skjólstæðinga sinna. Að sjálfsögðu er sátt um málið svo langt sem það nær og stendur ekki til af hálfu eins eða neins að tefja málið þar sem það felur í sér einhverja kjarabót, herra forseti. Það felur þó ekki í sér að menn lýsi þar með yfir að þeir telji að fullu komið til móts við sjónarmið sín.

Ég geri ráð fyrir, herra forseti, að því miður eigi eftir að kveða upp úr með það fyrir dómi, hjá einstaklingum sem höfða munu mál til að fá fullan rétt sinn.