Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:11:42 (5506)

2001-03-12 16:11:42# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tvisvar á ári eru svokallaðir samráðsfundir milli fulltrúa ríkisstjórnarinnar og fulltrúa eldri borgara. 1. mars sl. komu félagar eldri borgara á fund þessarar nefndar ríkisstjórnarinnar og fjölluðu um þessi mál. Þetta var þá forgangsmál hjá þeim. Við héldum þrjá fundi og komumst að þessari niðurstöðu. Þetta er ekkert endanlegt í málinu heldur eitt skref á langri leið. Ég tel mjög mikilvægt að hafa náð þessu samkomulagi.

Eins og fram hefur komið var haldinn sameiginlegur fréttamannafundur, einmitt vegna þess að menn höfðu náð samkomulagi. Það er hins vegar í verkalýðsbaráttu eins og í baráttu almennt að menn eru aldrei búnir. Það er alltaf eitthvað eftir.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir spurði áðan hvenær endanlegar tillögur kæmu frá nefnd Ólafs Davíðssonar sem er að vinna að þessum málum fyrir ríkisstjórnina. Það er áætlað að það verði um miðjan apríl. Ég á von á að það standist.

Í máli hv. þm. kom líka fram að það þyrfti alltaf flýtimeðferð í stórum málum. Ég held að í þessu máli geti menn ekki kvartað, þó að við ætlum ekki að taka okkur langan tíma í að afgreiða það, vegna þess að hér er um verulegar fjárgreiðslur til eldri borgara að ræða. Ég veit og heyri að menn eru sammála um það þó menn vilji auðvitað alltaf meira. Það er eðlilegt.