Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:13:18 (5507)

2001-03-12 16:13:18# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði einmitt að með þessu máli væri einum áfanga náð, þ.e. tekið skref í átt til þess sem eldri borgarar fóru fram á, m.a. þeirri ályktun sem ég vísaði til og las upp úr. Ég verð að segja að miðað við þann fréttaflutning sem ég hef séð af þessu máli þá virðist mér að menn hafi litið svo á að þarna væri tekið skref í rétta átt. Ég get t.d. vísað í útskrift frá Ríkisútvarpinu 7. mars þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði á fundinum í ráðherrabústaðnum nú fyrir hádegið að því færi fjarri að með þessu væru öll hagsmunamál Félags eldri borgara komin í höfn. Talsmenn eldri borgara tóku undir þetta og sögðu að með þessum breytingum yrði ákveðnum áfanga náð.``

Eftir því sem ég hef fengið að frétta af þeirra sjónarhorni á þetta mál, þá telja þeir betra að fá þetta mál í gegn en ekkert. Við getum orðað það þannig. Ég er fyllilega sammála því enda hyggst ég ekki tefja málið í þinginu og vil gjarnan að það fái framgang.

Ég ítreka hins vegar enn og aftur að það er stöðugt vísað til endurskoðunar almannatryggingalaganna, í þá nefnd. Ég óska eftir að hæstv. heilbrrh. lýsi því yfir hvenær vænta megi skila þeirrar nefndar vegna þeirra gríðarlegu væntinga sem eru til þessarar nefndar. Ljóst er að gríðarlega fjármuni þarf að hafa úr að spila eigi nefndin að koma til móts við þær væntingar sem til hennar hafa verið gerðar.