Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:35:54 (5512)

2001-03-12 16:35:54# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Útlán lánastofnana hafa vaxið hratt undanfarin ár og skýrist sú framvinda af ýmsu. Á árinu 1996 hófst mikill uppgangur í íslensku efnahagslífi sem skilaði sér í mjög bættri afkomu fyrirtækja og miklum vexti ráðstöfunartekna alls almennings. Nægir í því sambandi að nefna að kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um meira en fjórðung á seinni hluta síðasta áratugar. Um leið jókst bjartsýni um framhald hagstæðrar þróunar efnahagslífsins og stuðlaði hún m.a. að því að menn bjuggu við vaxandi áræði í fjárfestingu og í einkaneyslu. Hlutfall fjármunamyndunar af landsframleiðslu hækkaði t.d. til muna frá fyrri hluta 10. áratugarins til loka hans og einkaneysla jókst verulega ár frá ári frá 1995.

Einstaklingar hafa án efa kosið að auka neyslu sína hratt í kjölfar stöðnunarskeiðs sem stóð frá 1988 og fram undir miðjan síðasta áratug. Neyslan hefur vaxið hraðar en tekjur sem segir okkur að einstaklingarnir hafi kosið að verja hluta af framtíðartekjum sínum nú og tekið til þess lán.

Ekki fer á milli mála að aukið frelsi til athafna og miklar framfarir á fjármagnsmarkaði eiga þátt í þessari þróun. Almenningi og fyrirtækjum bjóðast nú mun fjölbreyttari kostir til sparnaðar og fjárfestinga en áður og á sama hátt bjóðast þeim mun fjölbreyttari kostir í hvers kyns lánafyrirgreiðslu við skilyrði virkrar samkeppni fjármálastofnana. Sú samkeppni er ekki aðeins á milli banka innbyrðis heldur einnig á milli ólíkra tegunda fjármálastofnana. Þetta þýðir m.a. að almenningur á nú mun betri tækifæri en áður til þess að nýta sér ólíka kosti í fjármögnun og annarri fyrirgreiðslu lánastofnana og að sníða hana að þörfum sínum hverju sinni. Af þessum sökum er ekki rétt að einblína á einhverjar einstakar eða ákveðnar tegundir fyrirgreiðslu og kjörin á þeim. Horfa þarf á myndina í heild. Fyrirtæki og einstaklingar hafa það í hendi sinni að haga lánamálum sínum á þann veg sem þeim þykir best henta aðstæðum sínum hverju sinni. Þá virðast Íslendingar afar vel vakandi fyrir nýjungum á fjármagnsmarkaði, líkt og á öðrum sviðum, og vakandi fyrir þeim möguleikum sem bjóðast.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að aukin ásókn í yfirdráttarlán bankanna getur stafað af ýmsu. Slík lántaka er í eðli sínu sveigjanleg og getur verið hagstæð ef fólk hefur í hyggju að greiða skuldir sínar innan skamms. Í nýlegi svari hæstv. viðskrh. við fyrirspurn málshefjanda um skuldir fyrirtækja og einstaklinga kom fram að hlaupareikningslán til einstaklinga hefðu aukist úr 38 milljörðum kr. í árslok 1999 í 60 milljarða kr. í lok síðasta árs eða um 58%. Nú hefur hins vegar komið í ljós að lánin í árslok 2000 voru 54 milljarðar kr. en ekki 60 og aukningin því 43%. Hér þarf einnig að hafa í huga að í þessum tölum eru innifalin lán til einstaklinga í atvinnurekstri. Aukning allra lána einstaklinga í bönkum og sparisjóðum á síðasta var því 29% en ekki 34% eins og áður var talið.

E.t.v. er það jafnan þannig að einhverjir kunni að hafa vanmetið greiðslugetu sína og ekki sést fyrir í lántökum sínum. Ýmsar ástæður geta legið þar að baki, svo sem óvæntar tekjubreytingar eða vanhugsuð áform. Mikilvægt er líka í þessu sambandi að lánastofnanir vandi lánaákvarðanir sínar. En það er ekki að sjá að mikill misbrestur hafi þó orðið í þessum efnum því svo virðist sem vanskil í lánastofnunum hafi verið í sögulegu lágmarki. Vanskil í lánastofnunum hafi verið í sögulegu lágmarki að undanförnu og á það jafnt við um einstaklinga og fyrirtæki. Það er þýðingarmikið að menn átti sig á þessu, að vanskil hafi verið í sögulegu lágmarki að undanförnu, en önnur mynd var dregin upp hér rétt áðan.

Á síðustu mánuðum hefur mikið dregið úr bílainnflutningi. Miðað við nýskráningu bifreiða var samdráttur á síðasta ári um 10%. Nýjustu tölur benda til þess að áframhald verði á þessari þróun því að samdráttur í nýskráningu bifreiða í janúarmánuði sl. miðað við janúar 2000 var hvorki meira né minna en 30%. Innflutningur á neysluvörum á síðasta ári bendir einnig til þess að útgjaldaaukningin hafi verið stöðvuð, en þá stóð hún í stað að raungildi. Sé tekið mið af þeim samdrætti sem fyrstu tölur þessa árs leiða í ljós má ætla að innflutningur neysluvara í heild fari nú minnkandi. Það bendir til þess að fólk sé að draga úr útgjöldum sem hefur aftur bein áhrif á skuldasöfnun fólks og möguleika til að lækka skuldir haldi þessi þróun áfram.

Ofþenslan, sem einkenndi þjóðarbúskapinn á undanförnum árum, náði hámarki á árinu 2000. Þegar líða tók á árið sáust teikn um að farið væri að draga úr vexti innlendrar eftirspurnar. Verðbólgan náði hámarki í apríl en hjaðnaði töluvert eftir það. Nokkuð dró úr veltu í ýmsum greinum. Á íbúðamarkaði komu einnig merki um heldur minni umsvif. Óhjákvæmilegt er að aðlögun að breyttum aðstæðum taki einhvern tíma en hennar sér stað. Fólk veit vel hvað það er að gera og óþarfi að láta eins og fólk kunni ekki fótum sínum forráð eins og alltaf er talað. Tal um að verið sé að ota ótæpilega okurlánum að fólki sem lýsir sér í því að fólk geti með einu símtali fengið yfirdráttarheimild á ávísanareikning sinn, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir segir, er mótsagnakennt og er e.t.v. til marks um breytta og betri tíma í þjónustu lánastofnana.