Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:41:22 (5513)

2001-03-12 16:41:22# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Erlendar skuldir íslensku þjóðarinnar hafa aldrei verið hærri, 762 milljarðar og stefnir í 800 milljarða, meira en nemur landsframleiðslu og hafa aldrei komist á þetta stig. Útlán í bankakerfinu aukast 25--30% á hverju ári. Ekki er óeðlilegt að við slíkar aðstæður spyrji menn hvort til sé innstæða fyrir þessum auknu skuldum. Ef við lítum niður í fréttir síðustu daga virðist svo ekki vera. Hér segir: ,,Árangurslaus fjárnám jukust um 60% milli áranna 1998 og 2000.`` Annars staðar segir í fréttum: ,,Alvarlegum vanskilum fjölgaði um rúm 30% hjá ungu fólki milli áranna 1998 og 2000. Alls voru tæplega 3.000 Íslendingar á aldrinum 18--35 ára í alvarlegum vanskilum í fyrra.`` Þannig mætti áfram tala.

Hæstv. forsrh. talaði af ótrúlegu óraunsæi, ég vona að það sé óraunsæi fremur en ábyrgðarleysi. Hann talar um áræði einstaklinga í fjárfestingum og í einkaneyslu. Gerir hæstv. forsrh. sér ekki grein fyrir því hve margt þessa fólks eru nauðugir lántakendur? Þeir eru til þess neyddir að taka lán sem eru á háum vöxtum. Ekki aðeins húsbréfalánin, sem eru upp undir 6% þegar afföllin eru reiknuð með, heldur einnig bankalán sem í sumum tilvikum liggja í 20% vöxtum. Þetta eru staðreyndir. Ríkisstjórn sem skellir skollaeyrum við þessum staðreyndum, rís ekki undir þeirri ábyrgð sem hún á að gera gagnvart íslenskri þjóð.

Mér finnst mjög mikilvægt að nú setjist menn niður og reyni að komast að niðurstöðum, reyni að finna leiðir til að komast út úr þessum vanda. Það verður gert með róttækum breytingum á húsnæðiskerfinu og ýmsum öðrum ráðstöfunum.