Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:43:51 (5514)

2001-03-12 16:43:51# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Víst eru skuldir heimilanna miklar og ástæða til að hafa áhyggjur af þeim en fram undir þetta hafa þær haldist í hendur við innstæður heimilanna í lífeyrissjóðum þannig að þar er um svipaðar upphæðir að ræða. Hjá Íbúðalánasjóði hefur hlutfall vanskila af heildarútlánum sjóðsins árin 1999 og 2000 verið það lægsta sem orðið hefur frá stofnun húsbréfakerfisins árið 1989. Hlutfall vanskila af heildarútlánum þann 1. janúar 2000 var 0,3% en var 1% á árunum 1994--1997. Menn hafa líka verið að tala um nauðungaruppboðin en fjöldi uppboða þar sem Íbúðalánasjóður og áður Húsnæðisstofnun varði kröfur sínar náði sögulegu lágmarki á árinu 1999, en þá voru þau 276. Nokkur fjölgun var á árinu 2000 en þá voru mætingar 317. En mestur fjöldi var árið 1995, eða 628.

Ef við lítum á umsóknir vegna greiðsluerfiðleika hjá Íbúðalánasjóði voru umsóknir um greiðsluerfiðleikalán eða umsóknir til frystingar lána vegna greiðsluerfiðleika 233 á árinu 2000 en voru 1.545 á árinu 1995. Fæstar umsóknirnar urðu árið 1999, eða 159. Íbúðalánasjóður hefur heimildir til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum, í fyrsta lagi að frysta í þrjú ár og/eða breyta vanskilum og vöxtum í lán til 15 ára. Það þarf að fjölga þessum úrræðum og ég vonast eftir því að koma með frv. þar að lútandi á næstu vikum.