Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:54:54 (5519)

2001-03-12 16:54:54# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er ljóst að háir vextir eru afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ekki er hægt að horfa fram hjá því hvernig haldið hefur verið á ríkisfjármálum þessarar þjóðar og tengja það við hið háa vaxtastig.

Fjárlögin hafa að sjálfsögðu verið skilin eftir með afgangi nokkur undanfarin ár, en ljóst er að markaðurinn hefur ekki verið í takt við þann afgang. En það er rétt sem hv. þm. Jón Kristjánsson segir að einstaklingar hafa ekki sparað á þann sama hátt og gert hefur verið með fjárlögum undanfarinna ára. Það segir eitt --- markaðurinn hefur ekki treyst því sem gert hefur verið með fjárlögunum, því miður.

Viðskiptahalli þjóðarinnar er að sjálfsögðu orðinn allt of mikill. Hann er að nálgast um 10% af landsframleiðslu og slíka hæð höfum við ekki séð um langa hríð. Við höfum engin lönd til að miða okkur við í slíkum stærðum og viðskiptahallinn hefur verið svo hár um allt of langt skeið.

Það er því eðlilegt, herra forseti, að hæstv. forsrh. sé spurður að því hvort ríkisstjórnin hafi sett sér einhver markmið um að hafa viðskiptahallann innan ákveðinna marka á einum ákveðnum tíma.

Herra forseti. Einnig er eðlilegt að velta fyrir sér hvernig á því stendur að hæstv. forsrh. virðist engar áhyggjur hafa af auknum vanskilum hjá yngra fólki landsins. Það er eðlilegt að rifja upp að komið hefur fram í könnun að alvarleg vanskil, þ.e. nauðungarsala eða að mál hafi komið fyrir dómsóla, hafa aukist mjög hjá ungu fólki. Þannig jukust vanskil hjá tvítugu fólki um 270% milli áranna 1998 og 2000. Um 140% hjá 21 árs ungmennum. Og um 95% hjá 24 ára fólki.

Herra forseti. Hví hefur hæstv. forsrh. engar áhyggjur af slíkum vanskilum?

Í þessu samhengi er eðlilegt, herra forseti, að vekja athygli á því að þeir vextir sem fólk þarf að greiða sem lent hefur í vanskilum hafa frá janúar 1999 til þessa dags hækkað um nær 45%, eða úr 16,5% í 24%. Það er ljóst, herra forseti, að hér er um alvarlegan vanda að ræða.