Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:59:20 (5521)

2001-03-12 16:59:20# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri afneitun sem fram kemur í orðum forsrh. heldur en skuldasöfnun heimila og fyrirtækja. Hæstv. ráðherra svarar ekki einni einustu spurningu sem til hans er beint. Hann telur að enginn vandi sé og allt sé bara í himnalagi. 23% vexti og mikil yfirdráttarlán telur hann bara lýsa sér í betri þjónustu lánastofnana. Hann svarar engu um það þegar hann er spurður hvort rétt sé að genginu sé haldið uppi með háum vöxtum. Hann svarar engu um það þegar hann er spurður hvort vanskil hjá heimilum og fyrirtækjum gætu ekki verið falin í mikilli aukningu á yfirdráttarlánum og ég spyr um það aftur. Hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. halda því raunverulega fram að það sé greinilega þá rangt sem fram hefur komið um mikil vanskil hjá 6.000 einstaklingum og fyrirtækjum á síðasta ári, vegna mikillar aukningar á árangurslausu fjárnámi sem hefur aukist um 60%, tvöföldun á umsóknum um greiðsluerfiðleikalán og í það stefni að 400 íbúðir fari á uppboð á þessu ári. Hefur ráðherrann virkilega engar áhyggjur af þessu?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann enga trú á sinni eigin efnahagsstefnu eða á því að þensla sé í rénun? Eða getur ráðherrann lýst því yfir að nú sé orðið tímabært að lækka hér háa vexti og þá að yfirlýsingar fyrrv. viðskrh. gangi eftir að vaxtalækkanir séu á næsta leiti?

Það er nefnilega svo að himinhár raunvaxtakostnaður fyrirtækja og einstaklinga getur valdið miklum samdrætti og greiðsluerfiðleikum og leitt til afskrifta útlána í bönkum með tilheyrandi keðjuverkun.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Óttast hann ekki þau hættumerki sem alls staðar blasa við og að við gætum verið að sigla inn í fjármálakreppu?