Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:06:51 (5528)

2001-03-12 17:06:51# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993. Með frv. þessu er verið að gera sambærilegar breytingar á lögum um almannatryggingar gagnvart öldruðum og gerðar voru gagnvart öryrkjum í janúar sl.

Þetta frv. tekur til milli 1.100 og 1.200 manns eins og kemur fram í greinargerðinni. Þetta eru þeir sem ekki hafa tekjur eða hafa litlar tekjur úr öðrum áttum og eru í hjónabandi. Í dómi Hæstaréttar í málefnum öryrkja frá því í desember sl. var ljóst að eingöngu var tekið á öryrkjum og mátti lesa úr dómnum að önnur sjónarmið gætu gilt varðandi aldraða og sagði m.a. orðrétt, með leyfi forseta, í dómi Hæstaréttar:

,,Staða öryrkja getur þó verið að því leyti ólík stöðu ellilífeyrisþega að margir þeirra greiða ekki í sama mæli í lífeyrissjóð og geta því ekki öðlast sams konar réttindi úr lífeyrissjóðum.``

Reyndar er nú svo að þessi staðhæfing Hæstaréttar er ekki alls kostar rétt því að öryrkjar, sem hafa á annað borð greitt í lífeyrissjóð og eru greiðendur þegar örorkan kemur til, hafa tiltölulega góðan rétt í lífeyriskerfinu því að öllu jöfnu, en samt með þeirri undantekningu sem eldra lífeyriskerfi opinberra starfsmanna er, fá öryrkjar örorkulífeyri sem er framreiknaður þannig að lífeyrir hans frá örorku til ellilífeyris er jafnhár og ef hann hefði greitt í lífeyrissjóð alla starfsævi sína þar til hann fer á eftirlaun. Þannig er örorkulífeyrir hans frá lífeyrissjóði jafnhár ellilífeyri eins og hann hefði verið starfandi fram á eftirlaunaaldur. Hins vegar er alveg ljóst í þessu sambandi að Hæstiréttur leit svo á að réttur öryrkja til sjálfstæðrar grunnframfærslu án tillits til tekna maka væri ekki með öllu yfirfæranlegur yfir á lífeyri aldraðra.

Hér var ég ekki sammála Hæstarétti eins og kom fram í máli mínu á sínum tíma og sama sjónarmið kom fram hjá fulltrúum aldraðra á sínum tíma. Ég sagði í ræðu minni í janúar að ég teldi nauðsynlegt að skoða stöðu aldraðra með hliðsjón af dómnum og nefndi þar m.a. það lýsandi dæmi þegar öryrki sem verið hefur á örorkubótum fer yfir á ellilífeyri og örorkulífeyrir fellur niður. Samkvæmt núgildandi lögum og eftir breytinguna sem gerð var á lögunum í janúar sl. gætu tekjur viðkomandi lækkað við það eitt að fara af örorkulífeyri á ellilífeyri þegar litið er til bóta almannatrygginga. En að sjálfsögðu breytist ekkert varðandi greiðslur viðkomandi úr lífeyrissjóðum fremur en áður þar sem réttindin í lífeyrissjóðnum eru skilgreind óháð öðrum tekjum. Ég tel því óeðlilegt að tekjur öryrkjans frá almannatryggingakerfinu minnki við að komast á eftirlaunaaldur og að maki öryrkja þurfi að taka á sig auknar framfærsluskyldur gagnvart öryrkjanum við það að hann hafi náð tilteknum aldri.

Því eru þær breytingar sem lagðar eru til í því frv. sem hér er til umfjöllunar rökréttar og nauðsynlegar og í raun óhjákvæmilegar þótt við getum e.t.v. sett spurningarmerki við að sá hópur sem er að fá auknar bætur er, eins og í öryrkjamálinu, sá sem er einna best settur þegar horft er til fjölskyldutekna.

Sá hópur sem er að fá núna aukinn rétt er að mestu konur, gæti þó verið karlar, sem hafa verið heimavinnandi mestan hluta ævi sinnar og ekki aflað sjálfstæðs réttar til lífeyris með vinnu utan heimilis. Þetta eru konur sem eru í hjónabandi. Þetta eru t.d. ekki ekkjur, ekkjur hafa þá makalífeyri. Þetta eru ekki konur sem eiga maka sem eru með lágar tekjur því þær hafa fullan rétt. Þetta eru þá konur þar sem maki hefur þokkalegar tekjur. Nú fá þessir einstaklingar, í flestum tilvikum konur, nýjan sjálfstæðan rétt til lífeyris óháð tekjum maka og er litið svo á að þær séu ekki í sama mæli á framfæri maka síns og þær hafa verið lengst af og sjálfsagt verið samkomulag um meðal hjóna.

Ég benti á það í umræðunni um öryrkjafrv. að það væri umhugsunarefni að við það eitt að ná tilteknum aldri líta stjórnvöld svo á að vakni sérstakur réttur einstaklingsins, konu eða karls, til lágmarksframfærslu og að makinn hafi ekki lengur sömu framfærsluskyldu við maka sinn og hefur verið samkomulag hjóna á milli um árabil.

Spyrja má hvaða breytingar verða á högum þessarar konu eða karls við að komast á eftirlaunaaldur sem gerir það að verkum að hún eða hann þarf á sérstakri lágmarksframfærslu að halda umfram það sem áður hefur verið.

Þetta eru þær hugleiðingar sem koma upp við þessa breytingu. En breytingin er hins vegar staðreynd og þó sjá megi á því sérstakar hliðar, sem eru athugunar verðar, þá er þetta í meginatriðum jákvæð breyting. Það er skoðun mín eins og ég sagði áðan að óhjákvæmilegt hafi verið að gera þessar breytingar eftir niðurstöðu Hæstaréttar og að lífeyrisþegi verði að hafa tiltekinn lágmarksframfærslueyri burt séð frá launum maka og þá var það í tilviki örorkulífeyrisþega. Ég tel að það hafi verið nauðsynlegt að yfirfæra þennan rétt yfir á ellilífeyrisþega.

Ég fagna því að niðurstaða hafi fengist með samræðum milli fulltrúa aldraðra og stjórnvalda og það hafi verið komist að niðurstöðu í málinu. Sú niðurstaða var kynnt á blaðamannafundi og það var samkomulag milli þessara aðila um að þessum málum yrði hagað á þennan máta núna en jafnframt var um það rætt að nú þegar væri verið að vinna að endurskoðun á ýmsum ákvæðum almannatryggingalaganna. Ég tel nauðsynlegt að hafa það í huga að við þá endurskoðun verði fyrst og fremst leitast við að bæta kjör þeirra sem búa við verstu kjörin og þá á ég bæði við öryrkja og aldraða. Allar rannsóknir hafa bent til þess að þeir hópar sem búa við verstu kjörin séu þeir sem þurfa að reiða sig nær alfarið á almannatryggingakerfið. Ég tel því mjög mikilvægt að ekki verði hvikað frá því markmiði því að við vitum að ekki er ótakmarkað fjármagn til skiptanna. Nú höfum við með ákvörðunum í janúar og svo aftur með því frv. sem lagt er fram núna verið að koma til móts við ákveðin sjónarmið um lágmarksframfærslu burt séð frá tekjum maka sem hefur þó orðið þess valdandi að ákveðnir hópar sem eru betur staddir hafa fengið aukið fjármagn milli handanna en ég tel óhjákvæmilegt að við tökum núna á kjörum þeirra sem verr standa.

Hins vegar hef ég haft ákveðnar áhyggjur af því að undanförnu að fólk hefur verið að skilja tilgang og markmið almannatryggingakerfisins með öðrum hætti en áður hefur tíðkast. Það er farið að skilgreina almannatryggingakerfið fyrst og fremst út frá réttindum en ekki út frá þörf og þörfin hefur oft verið skilgreind sem afstæð en ekki raunveruleg. Sem dæmi um þennan málflutning eru ellilífeyrisþegar sem telja réttindi á sér brotin þegar tekjutrygging er skert að hluta eða alfarið vegna eigin tekna úr lífeyrissjóði jafnvel þótt um verulegar tekjur úr lífeyrissjóði sé að ræða.

Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta: ,,Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.`` Og þarna vil ég leggja áherslu á ,,öllum sem þess þurfa``. Út á það gengur almannatryggingakerfið, að koma til móts við þá sem þess þurfa. Út frá raunverulegri þörf, ekki út af afstæðri þörf.

Það er almennt viðurkennt, og ég hef fjallað um það áður hér í þessum ræðustól, að tilgangur með almannatryggingakerfinu og velferðarþjónustu er að draga úr fátækt, að veita þjóðfélagsþegnum viðunandi lífskjaratryggingu og jafna lífskjör. Almannatryggingakerfið er tryggingakerfi sem ætlað er að koma til skjalanna þegar einstaklingur getur ekki framfleytt sér sökum heilsubrests, örorku, elli eða ungs aldurs. Eitt af megineinkennum almannatryggingakerfa í heiminum er að þau líta á það sem hlutverk sitt að koma fyrst og fremst til móts við þá sem minna mega sín og að þeir sem betur komast af þurfi ekki á sama máta á stuðningi samfélagsins að halda. Þetta er grundvallarhugsunarháttur sem við megum ekki hverfa frá.

Auðvitað er hægt að hugsa sem svo að almannatryggingakerfið veiti tiltekinn rétt, burt séð frá öðrum tekjum, en ég er ekki viss um að við séum tilbúin til þess að fara þá leið. Við vitum að það kallar á mikla tilfærslu á fjármagni frá þeim ungu til þeirra eldri. Ég er ekki sannfærð um það að hinir eldri séu tilbúnir til þess að setja auknar álögur á börnin sín til að fá aukið fjármagn sem þeir hafa e.t.v. ekki þörf á vegna þess að þeir hafa lagt til hliðar í lífeyriskerfið eða með öðrum sparnaði.

Ég tel því mjög mikilvægt að við tryggjum að það takmarkaða fjármagn sem er til skiptanna nýtist þeim sem þurfa raunverulega á því að halda. Eftir því sem kröfur til aðstoðar samfélagsins og skilgreining á þörfinni er víðari, á því fleiri hendur skiptist fjárhæðin og minna kemur í hlut hvers og eins. Þeir sem minnst hafa fá minna í sinn hlut.

Ég tel þann tíma sem fram undan er vera mjög mikilvægan. Við þurfum að skoða gaumgæfilega hvert hlutverk almannatryggingakerfisins er og skapa umræðu um það milli kynslóða, milli þeirra ungu og þeirra eldri. Ég tel að niðurstaðan verði sú, því fólk er í eðli sínu skynsamt, að fólk líti á almannatryggingakerfið sem leið til þess að koma til móts við þá sem minna mega sín en hinir þurfi ekki á sama máta á stuðningi samfélagsins að halda.

En þetta frv. sem er fyrir framan okkur er góðra gjalda vert. Það var óhjákvæmilegt að það kæmi fram og ég held að við eigum einmitt að reyna að hraða því og koma því í gegn og ljúka þá þessum kafla í endurskoðun á almannatryggingakerfinu og takast á við næsta kafla.